Málaferli Tchenguiz-bræðra gegn efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office munu hefjast í þessari viku og boða bræðurnir stórtíðindi í réttarhöldunum.

Efnahagsbrotadeildin hætti í febrúar rannsókn sinni á bræðrunum Robert og Vincent Tchenguiz, en meðal þess sem til rannsóknar var voru viðskipti þeirra við Kaupþing. Robert Tchenguiz sat í stjórn Exista, sem var stór hluthafi í Kaupþingi og var hann grunaður um að hafa haft óeðlilega auðveldan aðgang að lánsfé frá Kaupþingi.

Breska lögreglan handtók bræðurna í fyrra og gerði hjá þeim húsleit. Ekkert kom út úr rannsókninni og baðst SFO þá afsökunar á því að hafa treyst á rangar upplýsingar þegar ákvörðun var tekin um að fara af stað með rannsóknina.

Í frétt vefmiðilsins This is Money er haft eftir Robert Tchenguiz að ótrúlegar og áhugaverðar upplýsingar muni koma í ljós við þessi réttarhöld. Í fréttinni segir jafnframt að krafa bræðranna geti numið mörgum milljónum punda.