Starfsmenn á vegum efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar (e. Serious Fraud Office) lásu ekki lánasamninga sem embættið hafði undir höndum frá Kaupþingi áður en bræðurnir Robert og Vincent Tchenguiz voru handteknir í fyrra í kjölfar húsleitar hjá þeim. Robert var vildarviðskiptavinur Kaupþings í Bretlandi og stjórnarmaður í Existu.

Starfsmenn efnahagsbrotadeildarinnar höfðu samkvæmt því sem breska dagblaðið Financial Times segir um málið Tchenguiz-bræður hafa haft óeðlilega góðan aðgang að lánum hjá Kaupþingi.

Ekkert kom út úr rannsókn efnahagsbrotadeildarinnar og var henni hætt í febrúar. Forstjóranum var sparkað í kjölfarið og tók nýr við.

Vincent Tchenguiz fór í mál við efnahagsbrotadeildina eftir þetta á þeim forsendum að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegum skaða af völdum rannsóknarinnar, þar á meðal vegna umsvifamikils fasteignaverkefnis í London, og krefst 100 milljóna punda skaðabóta. Þetta jafngildir 20 milljörðum íslenskra króna. Réttarhöld hefjast í málinu í Bretlandi í dag.

Krafan er jafnhá láni sem hann fékk hjá Kaupþingi á sínum tíma. Kaupþing tók veð í fasteignaverkefninu. Á meðal forsenda efnahagsbrotadeildarinnar bresku fyrir rannsókninni á bræðrunum var sú að hún taldi Vincent Tchenguiz hafa ofmetið virði fasteignaverkefnisins og láðst að taka fram að hann hafði gert sambærilega lánasamninga við aðra banka sem áttu meiri veðrétt í verkefninu en Kaupþing.