Lyfja- og greiningartækjaheildsalan Lyra ehf. hagnaðist um 607 milljónir króna árin 2018-2020, samanborið við 158 milljónir samanlagt frá 2007 til 2017. Tekjur hafa einnig aukist úr 618 milljónum árið 2018 – sem þá höfðu aðeins hækkað um fimmtung á þremur árum – í 1.042 milljónir árið 2020.

Frá stofnun félagsins sem einkahlutafélag árið 2007 var enginn arður greiddur út úr félaginu fyrstu 10 árin þrátt fyrir 14 milljóna hagnað á ári að meðaltali. Síðan þá hafa alls verið greiddar 370 milljónir í arð, en eins og fram kom að ofan hefur hagnaður sama tímabils numið yfir 600 milljónum.

Hagnaður Lyru
Hagnaður Lyru

Stór útboð haft mikið að segja
Guðbjartur Örn Gunnarsson aðstoðarframkvæmdastjóri þakkar velgengnina að hluta til stórum útboðum sem félagið hefur unnið nýlega, og þeim dugnaði sem starfsfólkið hefur sýnt til að koma því til leiðar.

Meðal nýlegra samninga við fyrirtæki og stofnanir má nefna Íslenska erfðagreiningu, Alvotech, Háskóla Íslands og mikinn fjölda heilbrigðisstofnana, þar með talið margar deildir Landspítalans.

„Þessir samningar hafa haft mikið að segja. Þess fyrir utan erum við í mjög góðu samstarfi við okkar birgja og höfum saman góða innsýn í þarfir okkar viðskiptavina sem hefur einnig skilað góðum árangri.“

Félagið selur mikið af tækjabúnaði til heilbrigðisrannsókna, sem er stór og ört vaxandi starfsgrein hér á landi. Markaðurinn fyrir efnagreiningartæki hefur því vaxið mikið frá stofnun Lyru og tekið miklum stakkaskiptum, ekki síst síðustu ár, að sögn Guðbjarts.

Rík áhersla á þjónustu
Guðbjartur segir ríka áherslu á þjónustu síðustu ár hafa skilað Lyru sterkri stöðu á sínu sviði hér á landi, þótt fleiri fyrirtæki starfi á sama markaði.

„Það er ekki mikil samkeppni af beinni sölu erlendis frá vegna þess að þjónustuhlutinn er gífurlega krefjandi og skiptir alveg ótrúlega miklu máli. Það er svo gott sem ómögulegt að ætla að vinna þessa vinnu án þess að bjóða upp á heildarþjónustu með.“

Þessi áhersla kemur skýrt fram í framlegð fyrirtækisins. Árin 2015-2017 var hún 22% að meðaltali, en meira en tvöfaldaðist í 48% að meðaltali árin 2018-2020.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Samstarfssamningur íslensks netöryggisfyrirtækisins við eitt fremsta netöryggisfyrirtæki heims gerir því kleift að vera skrefi á undan netglæpamönnum
  • Frekari umfjöllun um Sonju de Zorrilla og minningarsjóðinn Sonja Foundation
  • Fjallað um stafræna byltingu á Landspítala
  • Huginn og muninn eru á sínum stað
  • Umfjöllun um deilur hluthafa og stjórnenda fjárfestingafélagsins Brúar II
  • Menntasprotafyrirtækið Beedle býr til námskerfi sem er aðgengilegt í gegnum Microsoft Teams
  • Týr fjallar um tillögur að bólusetningarpassa
  • Nýjustu vendingar á fjármálamörkuðum reifaðar
  • Ítarlegt sérblað um fasteignamarkaðinn fylgir Viðskiptablaðinu