Rekstur Tiger á Íslandi hefur gengið mjög vel ef marka má ársreikninga fyrir árin 2009 og 2010. Árið 2010 nam hagnaður Tiger eftir skatta 50,4 milljónum króna og 48 milljónum árið áður.

Eigið fé Tigers var 85 milljónir króna 2010 þannig að arðsemi eigin fjár var þá rétt tæplega 60% og um 63% árið 2009. Tiger á Íslandi rekur fjórar verslanir en félagið er í helmingseigu FM framtaks ehf. og Zebra a/s í Danmörku.

Nýlega var greint frá því í fréttum að íslenskir handhafar réttarins á hinum dönsku Tiger-verslunum hefðu opnað tvær Tiger-verslanir í Ósló og að verið væri að skoða möguleika á því að opna enn fleiri verslanir í Noregi.