Aðeins tímaspursmál er hvenær íslenska ríkið mun láta af innheimtu fimmtán prósenta skatts á arðgreiðslur sem renna frá Íslandi til félaga sem eru skráð í öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins, að mati Jóns Elvars Guðmundssonar, sérfræðings í alþjóðlegum skattarétti hjá lögmannsþjónustunni LOGOS.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telur að ef aðildarríki skattleggi slíkar arðgreiðslur með íþyngjandi hætti miðað við sambærilegar greiðslur milli innlendra félaga brjóti það í bága við ákvæði um frjálsa för fjármagns og Jón segir að öll rök hnígi að því að Evrópudómstóllinn taki undir þá skilgreiningu, bæði varðandi fjármagnsflæði og rétt til að hefja starfsemi. Ljóst er að um umtalsverðar upphæðir er að ræða en töluvert er um eignarhald í íslenskum félögum hjá öðrum félögum innan EES.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur stefnt ríkisstjórnum fjórum af aðildarríkjum sambandsins fyrir Evrópudómstólinn vegna ólöglegrar skattlagningar arðgreiðslna sem renna til annarra aðildarríkja. Í tilkynningu frá framkvæmdarstjórninni segir að aðildarríki ESB geti ekki skattlagt arðstekjur sem renna til annarra aðildarríkja með íþyngjandi hætti miðað við arðstekjur innanlands þar sem að það hamli flæði fjármagns og brjóti því gegn fjórfrelsisákvæðum sem gilda innan ESB.

Sambærilegar reglur gilda innan EES og í máli framkvæmdastjórnarinnar er m.a. sérstaklega vikið að arðgreiðslum til Íslands. Framkvæmdarstjórnin ákvað því að lögsækja ríkisstjórnir Belgíu, Spánar, Ítalíu, Hollands og Portúgals á dögunum vegna þess að þær brugðust ekki við tilmælum um að láta af skattlagningu á arðgreiðslum á milli landa þar sem að þær væru meira íþyngjandi en skattlagning á arðgreiðslum milli félaga innanlands.


Unnið mál

Að sögn Jóns Elvars eru allar líkur á því að framkvæmdastjórnin sé með unnið mál gegn ríkjunum fjórum í höndum, í ljósi þess lagaumhverfis sem gildir um slíkar greiðslur. Það styrkir jafnframt málstað framkvæmdastjórnarinnar að Evrópudómstóllinn úrskurðaði fyrirtækinu Denkavit í hag í málaferlum gegn Frakklandi um skattlagningu á arðgreiðslum milli landa.

Málaferlin geta komið til með að hafa viðtækar afleiðingar hér á landi en íslenska ríkið innheimtir skatt af arðgreiðslum sem renna frá innlendum félögum til annarra sem eru staðsett á EES-svæðinu. Enginn skattur er í raun lagður á arðgreiðslur sem renna á milli innlendra félaga á meðan 15% skattur er lagður á arðgreiðslur til félaga utan Íslands komi ekki til þess að tvísköttunarsamningur dragi úr þannig skattlagningu.

Jón Elvar bendir á að það sé sérstakt að Evrópubandalagið sé í málaferlum við aðildarríki sín, m.a. vegna skattlagningar á arðgreiðslum til Íslands, á meðan ekki verði vart við frumkvæði hér til að lagfæra sambærileg vandamál. Hann segir ekki útilokað að íslenska ríkið kunni að verða skaðabótaskylt vegna skattlagningar arðstekna sem renna úr landi til annarra EES ríkja umfram þann skatt sem væri lagður á hefði félag á Íslandi tekið á móti þeim.

Fordæmi eru þegar komin fyrir því að endurgreiða þurfi vegna oftekinna skatta í bága við skuldbindingar samkæmt EES samningnum, bæði á Íslandi og í Noregi. Þannig hefur Ísland m.a. fengið á sig dóm vegna virðisaukaskattsreglna og Noregur vegna reglna um skattlagningu arðs. Í síðarnefnda tilvikinu hafði Noregur fallist á niðurstöðuna og gefið út leiðbeiningar um það hvernig þeir sem brotið var á gætu leitað endurgreiðslu. Jón Elvar bendir hins vegar á að samræmi sé milli skattlagningar arðstekna einstaklinga innanlands sem utan, þannig að spurningin snýst um arðgreiðslur milli félaga að því er Ísland varðar.

Söguleg arfleifð sem stenst ekki ákvæði um fjórfrelsi

Arðgreiðslur sem renna á milli landa hafa lengi verið skattlagðar ólíkt því sem gerist um arðgreiðslur milli félaga innan ríkja að sögn Jóns Elvars og bendir hann á að ríkisstjórnir hafi meðal annars brugðið á það ráð að gera á milli sín tvísköttunarsamninga til þess að afnema skattlagninguna eða draga úr henni. Þegar ákvæðið um fjórfrelsið svokallaða tók gildi á Evrópska efnahagssvæðinu á tíunda áratug nýliðinnar aldar hafi sú staða komið upp að slík skattlagning bryti í bága við ákvæði um frjálsa fjármagnsflutninga og staðfesturétt milli þeirra ríkja sem tilheyra svæðinu.

Framkvæmdastjórnin gerði í fyrra athugasemd við framkvæmd slíkrar skattheimtu í ríkjunum fjórum sem um ræðir og óskaði eftir að lögunum yrði breytt. Þau urðu ekki við því og í millitíðinni féll hinn svokallaði Denkavit-2 dómur í Evrópudómstólnum. Í ljósi niðurstöðu dómstólsins í því máli og öðrum varðandi arðgreiðslur milli ríkja er nokkuð ljóst að dagar þessarar íþyngjandi skattheimtu milli landa eru taldir á Evrópska efnahagssvæðinu, segir Jón Elvar að lokum.