Malasísk yfirvöld hafa höfðað sakamál gegn bandaríska fjárfestingabankanum Goldman Sachs vegna meintrar aðildar hans að fjárdrætti úr ríkisfjárfestingasjóðnum 1MDB. Financial Times greinir frá .

Tveir bankamenn sem starfa fyrir bankann hafa verið sérstaklega ákærðir. Ríkissaksóknari Malasíu fer fram á sektir upp á samanlagt yfir 3 milljarða dollara, hátt í 400 milljarða íslenskra króna, á hendur dótturfyrirtækjum Goldman og fyrrum starfsmanna þeirra.

Starfsmennirnir eru sakaðir um að hafa tekið þátt í að ráðstafa 2,7 milljörðum dollara, sem aflað var með útgáfu skuldabréfa, „á óheiðarlegan hátt“ árin 2012 og 2013.