Niðurskurðirnir munu vera hluti af breyttum áherslum undir stjórn Þjóðverjans Christoph Mueller sem tók við starfi framkvæmdastjóra félagsins þann 1.maí síðastliðinn. Muller stýrði áður írska flugfélaginu Aer Lingus og tókst að snúa rekstri þess á réttan kjöl en aðaláhersla í breytingu á rekstri Malaysia Airlines verður að fækka starfsmönnum, minnka flotann og mögulega verður tekið upp nýtt nafn á flugfélagið. Þetta kemur fram í frétt Allt um flug .

Róðurinn hefur verið erfiður fyrir malasíska flugfélagið sem missti tvær farþegaþotur í fyrra, flug MH370 sem hvarf sporlaust í mars 2014 og flug MH17 sem var skotið niður í Úkraínu fjórum mánuðum síðar.

"Þetta er mjög sorgleg staða og mér datt aldrei í hug að það kæmi upp svona ástand þegar ég hóf störf hjá félaginu fyrir tveimur áratugum síðan", segir einn starfsmaður hjá Malaysia Airlines sem segist ekki sjá fram á að geta greitt af húsinu sínu og af bílalánum.