Slitlag á vegum í Reykjavík er með allra versta móti. Holur eru víða á götum og sömuleiðis sprungur. Þetta segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins.

„Já ég hef aldrei séð annað eins eins og hvernig göturnar eru leiknar eftir veturinn. Þannig að við erum búnir að bæta þar í. Vegagerðin hefur gert slíkt hið sama. Og þess vegna verða malbiksframkvæmdir kannski því miður meira áberandi núna í sumar heldur en þær hafa verið. En það er ekki vanþörf á," er haft eftir Degi B.

Fjárveiting aukin um 190 milljónir

Dagur segir að fjárveiting til viðhalds á vegum verði 690 milljónir árið 2015, en undanfarin ár hafi 400 milljónir verið notaðar til sama verks. Þá er áætlað að Vegagerðin veiti 722 milljónum til viðhalds á vegum á höfuðborgarsvæðinu, en það sé 150 milljónum meira en til stóð í upphafi.