Malbikstöðin og Fagverk hafa keypt Malbik og völtun ehf. en það síðastnefnda hafði verið starfrækt í 40 ár og komið að miklum fjölda malbikunarverkefna í gegnum tíðina. Með kaupunum sameinast fyrirtækin undir merkjum Malbikstöðvarinnar og færist starfsfólk hins keypta fyrirtækis þangað yfir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kvis.

"Með sameiningunni verður liðsheildin hjá okkur enn sterkari og áratuga reynsla starfsmanna Malbiks og völtunar er okkur afar verðmæt auk þess sem samlegðaráhrifin verða til hagsbóta fyrir viðskiptavini okkar beggja. Þekkingin sem við fáum yfir með kaupunum er mikil en sjálfur vann ég fyrst með þeim fyrir 30 árum svo það er komin góð reynsla á samstarfið," segir Vilhjálmur Þór Matthíasson, framkvæmdastjóri Malbikstöðvarinnar og Fagverks, í tilkynningunni.

Kaupin eru sögð mikilvægur hluti af uppbyggingu Malbikstöðvarinnar og Fagverks og einn liður í baráttu fyrirtækjanna um aukna markaðshlutdeild í samkeppni við Reykjavíkurborg sem fer mikinn á malbiksmarkaðnum í samkeppni við einkafyrirtækin.

„Þeir viðskiptavinir sem Malbik og völtun ehf. höfðu fyrir munu vonandi fylgja þeim yfir og við komum þá til með að þjónusta þá áfram og ætlum okkur auðvitað að gera það mjög vel," segir Vilhjálmur Þór Matthíasson í tilkynningunni.

Jón Bjarni Jónsson og Valgarð Einarsson, fyrrum eigendur Malbik og völtun, munu starfa sem sérfræðingar hjá hinu sameinaða fyrirtæki.