Slitastjórnir Landsbankans og Glitnis hafa gert samkomulag við Malcolm Walker, stofnanda og forstjóra bresku matvörukeðjunnar Iceland Foods, og lykilstjórnendur um sölu á 77% hlut í versluninni til þeirra. Þrotabú gamla Landsbankans á 67% hlut og þrotabú Glitnis 10%. Walker og stjórnendur Iceland Foods eiga það sem útaf stendur.

Slitastjórn Landsbankans vildi ekki tjá sig frekar um málið þegar leitað var eftir því í kvöld.

Breska dagblaðið Telegraph segir Walker og lykilstjórnendur Iceland Foods hafa boðið 1,55 milljarða punda, jafnvirði 301 milljarða íslenskra króna, fyrir hlutinn. Þeir fjármagna kaupin sjálfir og í gegnum bankana Bank of America og UBS auk þess sem fjölskylda Walkers og vinir leggja fram 100 milljónir punda. Walker og félagar höfðu í krafti eignarhlutar síns rétt til að leggja fram hærra tilboð í hlut slitastjórna föllnu bankanna en fjárfestingarsjóðirnir Bain Capital og BC Partner höfðu boðið í söluferlinu með hlutinn.

Telegraph segir ekki hafa verið reiknað með að tilboð Walkers og stjórnenda færi yfir 1,25 milljarða punda. Margir hafi hins vegar lagt hönd á plóg til að gera þeim kleift að yfirbjóða hina, þar á meðal hafi slitastjórn Landsbankans boðist til að lána þeim 250 milljónir punda, jafnvirði tæpra 50 milljarða króna. Þá nutu þeir sömuleiðis stuðnings Deutsche Bank og fjárfestingararms bandaríska fjárfestingasjóðsins Blackstone ef á þyrfti að halda.

Í tilkynningu frá slitastjórn Landsbankans segir að búist verði við að skrifaði verði undir kaupsamning á næstunni og munu slitastjórnirnar gefa út tilkynningu um framgang mála.