Viðskiptanefnd Alþingis mun hittast á öðrum fundi í næstu viku til að ræða málefni Landsbankans í Lúxemborg. Þá hyggst nefndin kalla til sín fulltrúa, skilanefndar Landsbankans, fulltrúa Seðlabanka og fulltrúa viðskiptaráðuneytis, til að fá ítarlegri upplýsingar um stöðuna. Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir Íslendinga en innlánseigendur hafa verið frosnir inni með eignir sínar úti í Lúxemborg í tæpt ár.

Fulltrúar innlánseigenda hafa bent á að það séu allt að 130 milljarðar íslenskra króna sem er hætta á að tapist ef samningar nást ekki en um það er fjallað í Viðskiptablaðinu í dag.

Þetta er jafnhá fjárhæð og áætlaðar skattahækkanir næstu fjögurra ára. Til viðbótar þessu eru um 18 milljarðar sem eru eign íslenskra sparifjáreigenda en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa margir þeirra lýst yfir vilja sínum til að færa peningana sína til Íslands ef það verði til að greiða fyrir málinu.