Málflutningur er hafinn í Landsdómi í máli Alþingis gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Tekist er á um frávísunarkröfu Geirs en Andri Árnason hrl. flytur málið fyrir hönd Geirs. Saksóknari Alþingis í málinu er Sigríður Friðjónsdóttir, sem jafnframt er ríkissaksóknari. Málið byggir á samþykkt meirihluta Alþingis þess efnis að sækja skuli Geir til saka vegna viðbragða og viðbragðaleysis í aðdraganda þess að bankarnir féllu í október 2008.

Í fyrstu lagði meirihluti þingmannanefndar Alþingis það til að Geir yrði sóttur til saka fyrir Landsdómi ásamt Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Björgvini G. Sigurðssyni, fyrrverandi viðskiptaráðherra. Meirihluti náðist fyrir því á Alþingi að ákæra Geir en ekki náðist meirihluti fyrir öðrum sem þingmannanefndin taldi að hefðu gerst brotlegir gegn lögum um ráðherraábyrgð.

Ákæra var gefin út í málinu 10. maí sl. Ákæran er í fimm liðum og snýr að því að Geir hafi af ásetningi eða „stórkostlegu hirðuleysi í embættisfærslu“, eins og orðrétt segir í ákæru, sem forsætisráðherra á tímabilinu febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár brotið gegn lögum um ráðherraábyrgð. Er honum gefið að sök að hafa ekki beitt sér fyrir aðgerðum, almennum stjórnvaldsfyrirmælum eða stjórnvaldsákvörðunum, til að afstýra fyrirsjáanlegri hættu „fyrir heill ríkisins“. Síðan er honum enn fremur gefið að sök að hafa ekki haft frumkvæði að ýmsum aðgerðum, m.a. flutningi á Icesave-reikningum Landsbankans yfir í dótturfélag í Bretlandi. Geir hefur alfarið neitað sök og segir málið allt bera þess merki að vera í grunninn hluti af pólitískum réttarhöldum.