Munnlegur málflutningur í máli þrotabús Fons gegn Pálma Haraldssyni, Jóhannesi Kristinssyni og félagi í þeirra eigu sem skráð er á Tortóla, Waverton Group Limited, fer fram næstkomandi miðvikudag. Í því fer þrotabú Fons fram á að stefndu endurgreiði sér arðgreiðslu upp á 4,4 milljarða króna sem greidd var út árið 2007.

Alls hefur skiptastjóri Fons, Óskar Sigurðsson, höfðað ellefu riftunarmál vegna lána og arðgreiðslna sem áttu sér stað hjá Fons síðustu tvö árin fyrir þrot félagsins. Í hinum málunum hafa komið fram matsbeiðnir en þá eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að meta virði þeirra eigna sem seldar voru út úr félaginu. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þar verði gjaldfærni Fons, í skilningi gjaldþrotalaga, á þeim tíma sem ákvarðanirnar voru teknar, sem verið er að reyna að rifta, einnig metnar.