Mál Ríkissaksóknara á hendur Gunnari Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, verður flutt í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og hefst munnlegur málflutningur klukkan 9:15.

Gunnar hefur verið ákærður fyrir brot á þagnarskyldu með því að brjóta bankaleynd til viðbótar við ákæru fyrir brot í opinberu starfi.

Málið snýst um öflun fjárhagslegra upplýsinga um Guðlaug Þór Þórðarson innan Landsbankans sem síðar var komið til DV.

Ákæran var gefin út um miðjan júli í fyrra og getur brot á þagnarskyldu varðað allt að þriggja ára fangelsi.

Þegar hafa lögmaður Gunnars og saksóknari tekist á um ýmis atriði í málinu. Þannig vildi Gunnar að vararíkissaksóknari, Helgi Magnús Gunnarsson, viki vegna vanhæfis. Byggði Gunnar þessa kröfu sína á því að Helgi Magnús hefði sótt um embætti forstjóra FME en tapað fyrir Gunnari. Þessari kröfu var hafnað af héraðsdómi.