Hæstiréttur hefur vísað frá dómi máli endurskoðanda Tryggingasjóðs lækna. Endurskoðandanum var gefið að sök með því að hafa eftir endurskoðun á ársreikningum sjóðsins fyrir árin 1992 til 2000, áritað ársreikningana án fyrirvara. Hann var hins vegar sýknaður af ákærunni í héraðsdómi en Hæstiréttur taldi rannsókn lögreglu og ákæru áfátt og vísaði því málinu frá.

Segist Hæstiréttur telja, að til þess að rætt yrði um refsivert brot, sem stafi af vanrækslu um að gæta góðrar endurskoðunarvenju, væri ekki nægilegt að líta til þess eins, sem sá maður sem sökum væri borinn, væri talinn hafa gert eða vanrækt að gera, heldur yrði að horfa til þess samhliða hvað sú góða venja hefði krafist af honum eða heimilað honum að láta ógert.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Tryggingasjóðs lækna var á síðasta ári dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir 75 milljóna króna fjárdrátt á árunum 1992 til 1999 og bókhaldsbrot á árunum 1992 til 2001. Endurskoðandanum var gefið að sök með því að hafa eftir endurskoðun á ársreikningum sjóðsins fyrir árin 1992 til 2000, áritað ársreikningana án fyrirvara, og með yfirlýsingu um að þeir gæfu glögga mynd af efnahag og breytingu á eign, án þess að hafa við endurskoðunarvinnuna aflað fullnægjandi gagna til að byggja slíkt álit á og ekki kannað á fullnægjandi hátt þau gögn sem fyrir lágu, og þannig ekki hagað endurskoðunarvinnu sinni í samræmi við góða endurskoðunarvenju.

Hæstiréttur taldi, að mjög hafi skort á að rannsókn lögreglu hafi náð því markmiði, sem mælt væri fyrir um í lögum um rannsókn opinberra mála. Þá væri verknaðarlýsing í ákæru verulegum annmörkum háð, en endurskoðandanum væri gefið þar meðal annars að sök að hafa á tilteknu árabili ekki gætt góðrar endurskoðunarvenju og brotið á þann hátt gegn tilgreindum lagaákvæðum með því að ?hafa ekki kannað á fullnægjandi hátt gögn sem lágu að baki skuldabréfalistum sem fyrir hann voru lagðir á umræddu tímabili". Væri þar ekkert frekar vikið að því um hvaða gögn gæti hér verið að ræða eða hvað hefði átt að mega finna í þeim, hversu oft þetta var talið hafa gerst og þá hvenær á níu ára tímabili, í hverju ætluð háttsemi endurskoðandans fólst nánar í hvert skipti og hvað skorti þá á að störf hans teldust fullnægjandi.

Byggt á frétt á heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjíða, www.ll.is