Rúmlega 11 milljón króna kröfu félagsins RA 5 ehf., sem er dótturfélag Regins, á hendur Helgu Gísladóttur og Eiríki Sigurðssyni, fyrrverandi eigendum verslunarinnar Víðis, var vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir jól. Úrskurðurinn var birtur á vef dómstólanna í dag. Í upphafi árs 2019 var því hafnað af dómara málsins að vísa málinu frá.

Deila málsins laut að sjálfskuldaraábyrgðar sem eigendur Víðis gengust undir með leigusamningi frá 2011 um leigu á húsnæði að Garðatorgi 1 í Garðabæ. Samkvæmt samningnum skyldi fjárhæð fyrir leigu vera rúmlega 2,4 mánaðarlegar milljónir króna auk virðisaukaskatts. Fjárhæðin var bundin vísitölu neysluverðs til hækkunar.

Samkvæmt samningnum skyldu eigendur leigutaka, það er Víðis, ábyrgjast persónulega fjárhæð að andvirði 3ja mánaða leigugreiðslna. Auk þess átti fyrirrennari RA 5 ehf., það er Klasi ehf., veð í innréttingum og tækjum verslunarinnar en fjárhæðin sem það veð átti að tryggja var 10 milljónir króna.

Víðir fór í þrot á sumarmánuðum ársins 2018 og í kjölfarið voru eigendur verslunarinnar krafin um greiðslu samkvæmt samningnum. Vanskil húsaleigu, ásamt vöxtum og kostnaði, nam þá rúmum 18,4 milljónum króna. Krafan sem beindist að eigendunum nam alls 11,2 milljónum króna.

Á skiptafundi sem fram fór 26. júní 2018 kom hins vegar fram að Landsbankinn ætti tæki í versluninni. Var þar fært til bókar að tæki í versluninni hefðu rýrnað verulega í verði vegna breyttra krafna um útbúnað slíkra tækja og að sölutilraunir á þeim hafi ekki borið árangur. Var lagt til að RA 5 leysti til sín veðsettar eignir gegn því að gera ekki frekari kröfur í þrotabúið.

Í kjölfarið áttu fulltrúar RA 5 og Landsbankans í samskiptum vegna tækja og búnaðar sem verið hafði í versluninni. Niðurstaða þeirra samskipta var að Landsbankinn gerði ekki tilkall til tiltekinna innanstokksmuna í húsnæðinu og að RA 5 væri því frjálst að ráðstafa þeim með þeim hætti sem þeim sýndist. Sala á tækjunum gekk illa og reyndust þau flest verðlaus.

Af þeim sökum krafði RA 5 eigendurna um greiðslu en því var mótmælt af þeirra hálfu. Töldu þeir að leigusali hefði fengið fullnustu skuldarinnar með því að taka á móti tækjunum úr þrotabúi verslunarinnar. Umrædd tæki hafi verið metin árið 2017 og virði þeirra þá talið um 94 milljónir króna, það er um tífalt hærra en ábyrgðarskuldbindingin sagði til um. Ómögulegt hafi verið að þau hafi rýrnað svo í verði að þau teldust verðlaus. Var í því samhengi vísað til kauptilboðs Kaupáss ehf., dagsettu í september 2015, þar sem boðnar voru 200 milljónir króna í rekstrar- og lausafjármuni og aðrar eignir í versluninni að Garðatorgi. Þá var einnig á það bent að krafa málsins væri vanreifuð og ekki sundurliðuð.

Krafan illa reifuð og ekki bætt úr því við meðferð málsins

Í úrskurði héraðsdóms var vikið að því að tækin hefðu aldrei verið auglýst til sölu en að rætt hefði verið við mögulega kaupendur. Þeir hefðu lýst yfir áhuga á að kaupa þau en ekkert orðið úr því. Atvik varðandi sölutilraunirnar væru því nokkuð óljós og að óvissa væri uppi um virði þeirra og þar með veðandlagsins. Ekki þótti sýnt fram á að munirnir sem féllu í hlut RA 5 hefðu ekki dugað til tryggingu skuldarinnar.

„Í stefnu var ekki gerð grein fyrir heildarfjárhæð skuldarinnar, en við þingfestingu málsins var lagt fram yfirlit úr viðskiptamannaskrá [RA 5] þar sem fram kom að skuldin hefði numið [16,1 milljón króna] hinn 1. júní 2018. Í úrskurði héraðsdóms [frá janúar 2019], þar sem frávísunarkröfu [eigenda Víðis] var hafnað, kom fram að það hefði verið til muna skýrara að gera grein fyrir fjárhæð skuldarinnar í stefnu, en að rétt þætti að gefa [RA 5] færi á að bæta úr annmörkum á reifun málsins að þessu leyti undir rekstri þess,“ segir í niðurstöðukafla dómsins.

Að mati dómsins þótti skorta á skýrleika kröfunnar og því hefði verið bras fyrir eigendurna að taka til varna. Ekki hefði verið bætt úr því við meðferð málsins og lögðu eigendurnir áherslu á það í munnlegum málflutningi að fjárhæð skuldarinnar væri óljós og ekki lægi fyrir hvaða vanskil mynduðu höfuðstól skuldarinnar.

„Eins og [RA 5] hefur lagt mál þetta fyrir verður ekki ráðið með nægilega skýrum hætti hver heildarfjárhæð þeirrar skuldar var, sem krafa [félagsins] er byggð á, og er þegar af þeirri ástæðu ekki unnt að meta að hvaða marki greiðsluskylda stefndu getur verið fyrir hendi. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá dómi,“ segir í úrskurðinum.

Í ljósi niðurstöðu málsins var RA 5 gert að greiða Helgu og Eiríki 600 þúsund krónur, hvoru um sig, í málskostnað.