*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Innlent 27. júní 2013 18:08

Máli gegn fyrrverandi Landsbankastjórum vísað frá

Slitastjórn Landsbankans krafði fyrrverandi stjórnendur bankans um rúma 25 milljarða króna í skaðabætur.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Birgir Ísl. Gunnarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá dómi máli slitastjórnar gamla Landsbankans gegn fyrrverandi stjórnendum og stjórnarmönnum gamla Landsbankans fyrir hrun. Slitastjórnin krafðist rúmra 25 milljarða króna í skaðabætur.

Hinir stefndu voru Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, sem voru bankastjórar gamla Landsbankans, auk þeirra Kjartans Gunnarssonar, Andra Sveinssonar, Þorgeirs Baldurssonar, Svöfu Grönfeldt og Jóni Þorsteini Oddleifssyn. Þá var tryggingafélaginu Brit Insurance Ltd jafnframt stefnt í málinu.

Málið varðaði greiðslur úr Landsbankanum 6. október árið 2008 til Landsvaka, Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka og MP. Slitastjórnin telur að legið hafi fyrir að bankinn hafi verið ógjaldfær á sama tíma og peningarnir runnu úr honum því daginn eftir tók skilanefnd bankann yfir.

Umfangsmikið mál

Í úrskurði dómsins sem vb.is er með undir höndum segir að stefna í málinu er 46 blaðsíður að lengd og er lýsing málsatvika þar af 26 blaðsíður. Og þá segir í úrskurði héraðsdóms:

„Þótt ekki sé unnt að útiloka að slík lengd stefnu geti samrýmst meginreglu réttarfars um munnlegan málflutning, þegar um er að ræða sérlega flókin og umfangsmikil mál, skortir á að hin ítarlega málsatvikalýsing í stefnu málsins sé sett í fullnægjandi samhengi við málsástæður og lagarök stefnanda þannig að fyllilega sé ljóst á hverjum atvikum málatilbúnaður hans grundvallast. Telur dómari að þetta hafi gert stefndu nokkuð erfiðara um vik en ella að hafa uppi varnir, leitt til þess að greinargerðir þeirra urðu lengri en efni stóðu til og þannig átt þátt í því að auka á umfang málsins úr hófi. [...] Umræddur annmarki á málatilbúnaði stefnanda getur því ekki, einn og sér, leitt til frávísunar málsins, en getur hins vegar haft þýðingu við ákvörðun málskostnaðar við úrlausn þess.“

Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi slitastjórnar Landsbankans, segir í samtali við vb.is að verið sé að fara yfir málið. „Við gerum ráð fyrir að áfrýja þessari niðurstöðu til Hæstaréttar.“