Héraðsdómur Vesturlands vísaði á föstudaginn frá dómi skaðabótamáli Samtaka sparifjáreigenda vegna falls Kaupþings banka. Í forsendum úrskurðarins kemur fram að fátt ef nokkuð handfast sé í málatilbúnaði Samtaka sparifjáreigenda sem sýni nákvæmlega fram á hvernig og með hvaða athöfnum forvígismenn Kaupþings hafi bakað sér bótaskyldu.

Samtök sparifjáreigenda, sem eru hagsmunasamtök almennra hluta- og sparifjáreigenda, föluðust eftir kröfum í Kaupþing banka til að höfða prófmál á hendur fyrrverandi stjórnendum hans. Vildu samtökin fá úr því skorið hvort almennir hluthafar sem áttu hlutabréfi í Kaupþingi gætu sótt skaðabætur til forsvarsmannanna bankans.

Samtökin fengu í þessum tilgangi rétt sinn frá Stapa lífeyrissjóði, sem átti hlutabréf í Kaupþingi banka við fall bankans haustið 2008. Höfðuðu samtökin í kjölfarið skaðabótamál og kröfðust 902 milljóna kr. auk vaxta. Málshöfðuninni var beint gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, Magnúsi Guðmundssyni, Sigurði Einarssyni, Ingólfi Helgasyni og Ólafi Ólafssyni, sem kröfðust þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að þeir yrðu sýknaðir af kröfum samtakanna.

Ekki nægilegt að vísa til rannsóknarskýrslu

Til viðbótar við að ekki hafi verið sýnt fram með hvaða hætti stefndu hafi bakað sér bótaskyldu taldi dómurinn sönnunarfærslu samtakanna ófullnægjandi.  Ekki væri nægilegt að vísa til dómsúrlausna og enn síður til skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Var það því niðurstaða dómsins að honum væri ófært að leysa úr kröfum samtakanna og jafnframt að málatilbúnaðurinn gerði stefndu erfitt fyrir að halda uppi vörnum í málinu. Var málinu því vísað frá og samtökunum gert að greiða hverjum hinna stefndu 800.000 krónur í málskostnað.

Ólafur Ólafsson hefur ávallt lýst yfir sakleysi sínu í hrunmálunum og leitar enn réttar síns og hefur meðal annars krafist endurupptöku á Al Thani málinu segir í fréttatilkynningu. Synjun endurupptökunefndar var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku en það er í fyrsta skiptið sem á það álitaefni reynir fyrir dómstólum. Þá hefur Mannréttindadómstóll Evrópu tekið mál hans til skoðunar og beint spurningum til íslenska ríkisins vegna brotalama í Al Thani málinu.