Máli Impregilo á hendur íslenska ríkinu vegna oftekinna skatta verður ekki vísað frá en Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu íslenska ríkisins þess efnis.

Kröfur Impregilo hljóða upp á 1,5 milljarða króna, með vöxtum, en Impregilo telur sig hafa ofgreitt skatta vegna starfsmanna starfsmannaleiga sem fyrirtækið átti í viðskiptum við. Yfirskattanefnd úrskurðaði árið 2005 að Impregilo bæri að greiða staðgreiðslu opinberra gjalda vegna portúgalskra starfsmanna starfsmannaleiganna Select og Nett.

Hæstiréttur felldi þann úrskurð yfirskattanefndar úr gildi með dómi sínum í september árið 2007. Í dómi Hæstaréttar var því slegið föstu að Impregilo væri ekki launagreiðandi starfsmanna starfsmannaleiganna.

Í úrskurði héraðsdóms nú segir að óumdeilt sé að Impregilo hafi greitt staðgreiðsluna vegna launa starfsmannanna líkt og úrskurður yfirskattanefndar hljóðaði upp á. Ríkið hefur ekki endurgreitt Impregilo í samræmi við dóm Hæstaréttar frá því í fyrra.

Impregilo krefst endurgreiðslu á grundvelli dóms Hæstaréttar. Fyrirtækið taldi nauðsynlegt að höfða mál á hendur ríkinu til afhendingar greiðslunni þar sem aðrar leiðir dygðu ekki til.

Kröfur Impregilo ekki vanreifaðar

Ríkið heldur því fram að kröfur Impregilo séu vanreifaðar og óljósar. Því er héraðsdómur ekki sammála. Í nýfelldum úrskurði héraðsdóms segir að kröfur Impregilo um endurgreiðslu frá ríkinu séu hvorki vanreifaðar né óljósar. Því séu ekki efni til þess að vísa málinu frá, samanber kröfu íslenska ríkisins.

Málið mun því bíða efnisdóms og mun málskostnaður verða ákveðinn þegar þar að kemur.