Landsréttur staðfesti í vikunni frávísun héraðsdóms á máli Kortaþjónustunnar gegn Arion banka, Íslandsbanka, Landsbankanum, Borgun og Valitor. Málið teygir anga sína aftur til ársins 2013 þegar Kortaþjónustan krafði fjármálafyrirtækin fimm um skaðabætur vegna meintra samkeppnislagabrota fyrirtækjanna. Fyrirtækin gerðu í desember 2014 sátt við Samkeppniseftirlitið þar sem þau viðurkenndu brot á samkeppnislögum á árunum 2007 til 2009 og voru sektuð um 1,6 milljarða króna.

Samkeppnislagabrotin fólust í ákvörðun milligjalda og veitingu vildarpunkta á árunum 2007 til 2009.

Málinu var vísað frá í  Héraðsdómi  Reykjavíkur síðasta vor vegna vanreifunar og staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu. Í haust höfðaði Kortaþjónustan nýtt mál á hendur fyrirtækjunum  og fór fram á áðurnefnda upphæð. Héraðsdómur vísaði málinu frá 2. mars með vísan til þess að kröfurnar í málinu væru vanreifaðar. Landsréttur staðfesti svo þennan úrskurð.

Koraþjónustan byggði kröfur sínar á því að fyrirtækið hefði orðið fyrir tjóni vegna þess að markaðshlutdeild þess og þar með framlegð hafi orðið minni en ef ekki hefðu komið til samkeppnislagabrot varnaraðila. Af dómsátt fyrirtækjanna fimm við Samkeppniseftirlitið yrði hins vegar ráðið að Kortaþjónustan gæti aðeins átt rétt til bóta fyrir tjón sem er umfram það tjón sem leiddi af háttsemi sem lýst var í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og taldist uppgert með sáttinni.

Því hefði verið „afar mikilvægt“ fyrir Kortaþjónustuna að greina með skýrum hætti milli afleiðinga þeirra samkeppnislagabrota sem bætt voru með fyrrnefndri dómsátt og afleiðinga ólögmætrar framkvæmdar á ákvörðun milligjalda á markaðshlutdeild og framlegð. Slíka greiningu væri hins vegar ekki að finna í málatilbúnaði sóknaraðila. Þar af leiðandi verður ekki ráðið hvort og þá að hvaða leyti sóknaraðili hefur þegar fengið bætt það framlegðartap sem hann krefst að verði bætt í þessu máli.

Úrskurður Landsréttar.