Héraðsdómur hefur hafnað kröfu lögmanns Kötlu Guðrúnar Jónasdóttur um frávísun í máli embættis sérstaks saksóknara gegn henni. Kötlu Guðrúnu er gefið að sök að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir 2007 og 2008 vegna tekjuáranna 2006 og 2008, vantalið tekjur sínar þar um tæpar 117 milljónir króna. Henni er sömuleiðis gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram fasteign að Ingólfsstræti upp á 77 milljónir króna árið eftir. Í ákærunni segir að þetta hafi átt að flokkast sem gjafir. Gefin var út ákæra í málinu í fyrrahaust.

Katla Guðrún er fyrrverandi kona og barnsmóðir breska fjárfestisins Kevin Stanford, stofnanda tískuvörukeðjunnar Karen Millen. Stanford seldi Baugi hlut sinn í Karen Millen en félagið Mosaic Fashions eignaðist verslunina árið 2004. Hann fjárfesti nokkuð í íslenskum félögum, m.a. í FL Group og Baugi Group. Stanford var jafnframt einn af stærstu hluthöfum Mosaic Fashions. Katla Guðrún og Stanford keyptu fasteignina við Ingólfsstræti árið 2005.

Lögmaður Kötlu Guðrúnar krafðist frávísunar í máli hennar, m.a. vegna þess sem kallað er bann við tvírefsingu. Viðskiptablaðið hefur fjallað nokkuð um málið. Í grófum dráttum fjallar það um það að ekki sé hægt að beita mann stjórnvaldssekt og refsa honum síðar í öðru máli fyrir sama skattalagabrot.