Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði máli slitastjórnar Landsbankans gegn Halldóri J. Kristjánssyni, fyrrum bankastjóra, frá dómi. Landsbankinn krafðist riftunar á ráðstöfun sem fólst í greiðslu Landsbanka Íslands í séreignasparnað í þágu Halldórs. Upphæðin nam 100 milljónum króna og krafðist slitastjórn ennfremur að Halldór yrði dæmdur til að greiða milljónirnar með dráttarvöxtum.

Dómari taldi að annmarkar hefðu verið á reifun málsástæðu stefnanda, sem snéri að fjárhagsstöðu bankans er greiðslan var innt af hendi. Að mati dómara var málsgrundvelli raskað með viðleitni til að bæta úr óljósum málatilbúnaði með síðbúinni matsbeiðni. Slitastjórn lagði fyrir dóm í málinu matsbeiðni þremur mánuðum eftir að greinargerð Halldórs lá fyrir. Að mati dómara var ætlunin með matsbeiðninni að bæta úr annmörkum á málatilbúnaði slitastjórnar, en með henni vildi slitastjórn færa sönnur fyrir að reikningsskil Landsbankans á árinu 2008 hafi í veigamiklum atriðum verið röng.

Umrædd greiðsla fór fram á grundvelli minnisblað sem er dagsett 16. september 2008. Þremur dögum síðar, þann 19. september 2008, voru 100 milljónir lagðar inn á séreignalífeyrissparnaðarsjóð Halldórs. Slitastjórn Landsbankans telur að greiðslan hafi verið umfram skyldu og án gagngjalds, og að um gjöf hafi verið að ræða í skilningi laga um gjaldþrotaskipti. Þá telur slitastjórnin að rifta beri greiðslunni þar sem hún hafi verið ótilhlýðileg af hálfu bankans við þær aðstæður sem ríktu, stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Stefndi hafi þá vitað eða mátt vita að bankinn væri ógjaldfær, segir í helstu málsaðstæðum og lagarökum stefnanda.

Halldór mótmælti málatilbúnaði Landsbankans í heild og vísaði til þess að greiðslan hafi verið samningsbundið endurgjald af hálfu bankans fyrir þá ákvörðun að stefnandi héldi áfram störfum. Halldór ákvað á síðari hluta árs 2007 að halda áfram störfum, í stað þess að gera starfslokasamning, vegna aðstæðna á fjármálamarkaði. Halldór neitaði því einnig að um gjöf væri að ræða. „Stefndi mótmælir sérstaklega þeirri málsástæðu stefnanda að miðað við fjárhagsstöðu bankans 15. september 2008 hafi greiðslan bersýnilega verið ósanngjörn. Á þeim tíma hafi legið fyrir óháð álit mats- og eftirlitsaðila þar sem því hafi verið haldið fram að fall Lehman Brothers myndi hafa óveruleg áhrif á íslenskt efnahagslíf og fjármálakerfi og ólíklegt væri að það myndi hafa áhrif á bankakerfið hér á landi. Þá hafi greiningardeild Landsbanka Íslands hf. komist að sömu niðurstöðu. Þá mótmælir stefndi því sem ósönnuðu að stefnandi hafi verið ógjaldfær er hann innti greiðsluna af hendi eða hafi orðið það vegna greiðslunnar. Að því frágengnu mótmælir hann því að hann hafi vitað eða mátt vita af ógjaldfærni stefnanda og þær aðstæður sem hafi leitt til þess að rástöfunin hafi verið ótilhlýðileg.“

Halldór krafðist þess að málinu yrði vísað frá og byggði á þeim rökum að grundvelli málsins hafi verið raskað með matsbeiðni slitastjórnar, sem var um fjárhagsstöðu bankans, og gagnframlagningu í þinghaldi 7. mars síðastliðinn. Á það féllst dómari í málinu. „Virðist stefnandi telja að stjórnendur bankans hafi á þeim tíma beitt ýmsum rangfærslum í reikningsskilum hans til halda uppi eiginfjárhlutfalli bankans. Hafi það með réttu átt að vera komið niður fyrir lögmælt lágmark þegar árshlutauppgjörið fór fram í júnílok 2008.“

Dómari í málinu taldi að þurft hefði að gera grein fyrir þessum atriðum í stefnu ef ætlunin var að reisa málatilbúnað á þeim. „Gat stefndi með engu móti gert sér grein fyrir því af lestri hennar að á því yrði byggt í málinu að eiginfjárhlutfalli bankans hafi verið haldið uppi með rangfærslum í reikningsskilum hans.“