Samtök verslurnar og þjónustu (SVÞ) telur að Costco skuldi samtals 5 milljónir krona í aðildargjöld, bæði til sín og Samtaka atvinnulífsins. Máli samtakanna gegn verslunarrisanum var nýverið vísað frá dómi vegna óljósrar kröfu.

SVÞ stefndi Costo í október í fyrra til innheimtu á rúmlega 5 milljón krónum. Að sögn samtakanna var um vangoldin aðildargjöld að ræða samkvæmt þremur reikningum, einum að upphæð 3,4 milljónum króna, frá nóvember 2018, og tveimur upp á 850 þúsund krónur. Annar þeirra var frá byrjun síðasta árs og hinn frá vordögum þess árs.

Áður en Costco hóf starfsemi hér á landi hafði SVÞ aðstoðað félagið um hina og þessa þætti starfseminnar. Hafi fyrirtækið sótt um aðild að SVÞ en hvergi hefði komið fram að um ótímabundna aðild væri að ræða. Til að byrja með hafi gjald fyrir aðild verið á bilinu 8 til 13 þúsund krónur en skyndilega margfaldast. Það er farið úr 13 þúsund krónum í tæpar 3,4 milljónir.

Í mars í fyrra hafi Costco sagt sig úr félaginu og hafnað að greiða reikninga sem voru þrætuefni málsins auk síðari reikninga. Fyrir liggur að hluti fjárhæðarinnar laut að aðildargjöldum að Samtökum atvinnulífsins (SA) og dró Costco það í efa að SVÞ væri heimilt að krefjast greiðslu aðildargjalda SA.

Engir útreikningar að baki kröfunni

Krafðist Costco frávísunar af þeim sökum þar sem um vanreifun á aðild til sóknar væri að ræða. Auk þess væri málatilbúnaður SVÞ óskýr og óglöggur. Taldi verslunarrisinn að SA þyrfti einnig að sækja málið fyrst það lyti að innheimtu aðildargjalda að samtökunum. Þá væri dómkrafan ekki sundurliðuð og ekkert lægi fyrir hvernig hún væri til komin. SVÞ taldi á móti að samtökin gætu, sem aðili að SA, séð um að innheimta kröfuna fyrir SA.

„Þegar mál er höfðað til innheimtu skuldar verður stefnandi að lágmarki að gera grein fyrir skuldinni í stefnu og hvernig hún sé til komin. Engin tilraun er gerð til þess í stefnu að lýsa því hvernig fjárhæðir þeirra þriggja reikninga sem kröfur [SVÞ] eru byggðar á skiptast á milli krafna vegna vangoldinna félagsgjalda til [SVÞ] og árgjalda til SA eða hvernig fjárhæðir krafna þeirra, hvors um sig, eru reiknaðar út,“ segir í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.

Þá lægu ekki fyrir í málinu nein gögn um það við hvaða heildarlaunagreiðslur Costco sé miðað, eða hvernig fjárhæð þeirra sé fundin, en samkvæmt framlögðum gögnum um samþykktir stefnanda og um árgjöld SA, sem SVÞ taldi til hæfilegrar skýringar á kröfum sínum, virtist eiga að leggja launagreiðslur Costco að einhverju marki til grundvallar útreikningi. Málið þótti því svo óljóst að fallist var á frávísun þess frá dómi.