Máli tíu sjóðsfélaga í Sjóði 9 gegn Íslandssjóðum, sjóðastýringafyrirtæki Glitnis, hefur verið vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Frá þessu greinir Morgunblaðið. Sjóðsfélagarnir kröfðust skaðabóta vegna rýrnunar á verðmæti hlutdeildarskírteina sinna í sjóðnum þar sem mat á eign sjóðsins í skuldabréfum Baugs, FL Group og Eimskips endurspeglaði ekki raunverulegt verðmæti skuldabréfanna. Þar sem gengi sjóðsins hafi ekki verið lækkað hafi sjóðsfélögum í Sjóði 9 verið mismunað.

Íslandsbanki krafðist frávísunar og var fallist á það á þeirri forsendu að ekki sé nægilega skýrt tekið fram hvert tjón sjóðsfélaganna var auk þess sem forsendur staðhæfingar um að mat á bréfunum hafi ekki endurspeglað raunverulegt virði þeirra séu óljósar.