Lýsing hf. hefur orðið við kröfu Fjármálaeftirlitsins (FME) um upplýsingagjöf til viðskiptavina. Þetta gæti leitt til þess að sá hluti viðskiptavina Lýsingar sem þegar höfðu gert upp sín lán eigi endurkröfurétt á fyrirtækið og geti óskað eftir leiðréttingu á greiðslum.

Þann 20. ágúst síðastliðinn tók stjórn FME ákvörðun um að leggja 200 þúsund króna dagsekt á Lýsingu ef fyrirtækið yrði ekki við kröfum þess. Þetta kemur fram á vef FME. Málið hófst reyndar í fyrra og upphafleg ákvörðun FME er frá 11. september það ár. Lýsing kærði hins vegar þá ákvörðun og þann 13. júní vísaði Héraðsdómur Reykjavíkur málinu frá. Lýsing skaut málinu þá til Hæstaréttar, sem 18. ágúst staðfesti úrskurð Héraðsdóms. Þetta úrskýrir af hverju málið hefur dregist.

Tveimur dögum eftir dóm Hæstaréttar, eða þann 20. ágúst, tók stjórn FME ákvörðun um að leggja dagsektirnar á Lýsingu en fyrirtækið hafði átta daga til að verða við kröfunum. Það gerði Lýsing með bréfi sem það sendi FME þann 29. ágúst og voru því engar dagsektir lagðar á fyrirtækið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .