„Þetta er dómurinn og það er það sem menn verða að líta til. Þetta getur haft áhrif hvað varðar umfjöllun um þau atriði sem horft er til við ákvörðun refsingar. Það er alveg mögulegt,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari en Hæstiréttur Íslands hefur mildað dóm yfir fyrrverandi forstöðumanni hjá Glitni banka, meðal annars vegna þess að fjögur ár liðu frá því að maðurinn braut af sér og þar til sérstakur saksóknari gaf út ákæru.

Ólafur segir svolítið erfitt að átta sig á dómnum og bendir á að fram að þessu hafi mjög fáar athugasemdir verið gerðar í málum tengdum ákærum embættis Sérstaks saksóknara. Það sé svolítið sérstakt að í dómnum sé talað um tímann sem hafi liðið frá því að brotunum lauk þar til ákæra hafi verið gefin út en ekki tímann sem rannsóknin hafi tekið frá því að kæra hafi borist. Kæran frá Fjármálaeftirlitinu barst Sérstökum saksóknara í janúar árið 2011. Sérstakur saksóknari gaf síðan út ákæru í maí 2012, eða tæpu einu og hálfu ári seinna.

„Málið var því ekki í mjög lengi í rannsókn,“ segir Ólafur Þór. „Þannig að það er svolítið erfitt að átta sig á því hvað dómurinn er að fara hvað þessa athugasemd varðar.“ Spurður hvort hann telji að þessi tímamörk sem talað er um í dómnum séu fordæmisgefandi svarar Ólafur Þór: „Það verður allavega að horfa til þess. Þarna er komin fram einhver ákveðin afstaða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.