Mál Seðlabankans gegn Samherja hófst í febrúar árið 2012 þegar Seðlabankanum bárust gögn um verðlagningu karfa í tengslum við útflutning Samherja til dótturfélaga hans. Mánuði síðar fékk Seðlabankinn heimild til húsleitar og haldlagningar á skrifstofum Samherja á Akureyri og í Reykjavík hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Í beiðni Seðlabankans var fullyrt að Samherji hefði selt dótturfélögum sínum karfa á allt að 73% lægra verði en almennt var í viðskiptum með karfa síðustu mánuði ársins 2011, að ósamræmi væri í skilum Samherja á erlendum gjaldeyri, að grunur væri á að raunveruleg framkvæmdastjórn erlendu félaganna Icefresh GmbH og Seagold Ltd. (félög í eigu Samherja) væri á Íslandi og að grunur léki á að félögin sem beiðnin laut að væru starfrækt sem ein heild.

Samkvæmt upplýsingum frá Samherja voru nánast öll gögn sem voru á starfsstöðvum fyrirtækisins haldlögð, óháð því hvort þau vörðuðu meint sakarefni. Ekki hefur komið fram hvers vegna starfsmenn Seðlabankans framkvæmdu húsleitina í stað lögreglu þrátt fyrir að umfang hins meinta brots gæfi tilefni til þess að málinu yrði vísað til lögreglu. Í tilkynningu sem Seðlabankinn sendi frá sér í tengslum við húsleitina segir að hún hafi verið framkvæmd af gjaldeyriseftirliti bankans með aðstoð embættis sérstaks saksóknara

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta náglast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .