Tæknivörur hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að Skipti hf. og dótturfélög þess, Tæknivörur ehf. og Síminn hf. og Samkeppniseftirlitið hafa gert með sér sátt sem felst í því að viðurkennd eru brot Tæknivara á samkeppnislögum og fallist á viðurlög vegna þeirra.

Jafnframt segir í fréttatilkynningunni að viðurkennt er að Tæknivörur hafi brotið gegn 10. grein samkeppnislaga og 53. grein EES-samningsins og fallist á að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 400 milljónir króna vegna þessa. Þá skuldbinda skipti sig til að selja eignarhlut sinn í Tæknivörum.

Í sáttinni kemur fram að félögin hafi haft frumkvæði af því að láta Samkeppniseftirlitinu í té gögn og upplýsingar og hafi með sáttinni játað brotin og fallist á að sæta viðurlögum. Með sáttinni telst máli Samkeppniseftirlitsins lokið gagnvart fyrirtækjum innan Skiptasamstæðunnar.