Málmar hafa hækkað í verði það sem af er árinu. Ál og kopar hafa hækkað um 10% frá áramótum. Í Morgunkorni Glitnis segir að hækkunin komi í kjölfar mikilla kuldakasta víða um heim sem hafa gert það að verkum að framboð orku hefur verið slitrótt og þar með haft truflandi áhrif á framleiðsluna. Þá hefur gull og silfur einnig hækkað í verði frá áramótum. Í gær tilkynnti AngloGold Ashanti, þriðji stærsti gullframleiðandi í heimi, að enn yrðu hnökrar í framleiðslunni í kjölfar þrálátrar orkustöðvunar til framleiðslunnar. Framleiðsla AngloGold hefur dregist saman um 200 þúsund únsur í janúar vegna orkutruflana.

Kakóbaunir ekki dýrari í fimm ár Í morgunkorninu segir að verð á kakóbaunum hafi hækkað um 16% frá ársbyrjun og hefur nú ekki verið hærra í fimm ár. Verkföll verkamanna á Fílabeinsströndinni í Vestur-Afríku valda þar mestu um. Verkamennirnir sem hafa lagt niður störf sín vinna hjá einum stærsta framleiðanda kakóbauna í heimi, The Coffee and Cocoa Bourse, en með því að leggja niður vinnu sína mótmæla þeir launakjörum auk þess sem þeir vilja að framkvæmdastjóri fyrirtækisins verði rekinn vegna gruns um spillingu í starfi. The Coffee and Cocoa Bourse selur afurðir sínar til margra af stærstu súkkulaðiframleiðendum í heimi, þar á meðal Nestle.

Hveiti heldur áfram að hækka Engin hrávara hefur þó tærnar þar sem hveitið hefur hælana varðandi verðhækkanir á árinu. Hveiti hefur nú hækkað um 20% frá ársbyrjun. Verð á hveiti sló nýtt met í Chicago í gær vegna lækkandi birgðastöðu helstu hveititegunda í Norður Ameríku sem notaðar eru til brauð- og pastagerðar. Birgðastaða á hveiti er mjög lág um allan heim og hækkaði verð á framvirkum hveitisamningum í kauphöllinni í Ástralíu um 1,8% í gær. Hækkandi heimsmarkaðsverð á hveiti hefur áhrif til hækkunar matvælaverðs víða um heim en undanfarin þrjú ár hefur hveiti hækkað um 110% í verði, samkvæmt því sem segir í Morgunkorninu.