Málm- og námafyrirtæki í Asíu og Ástralíu, svo sem Rio Tinto og Sumitomo Metal Mining Co, hækkuðu í verði í dag þrátt fyrir ákvörðun Alcoa um aukinn samdrátt í framleiðslu, að því er segir í frétt MarketWatch. Rio Tinto hækkaði til að mynda um 8% í kauphöllinni í Sydney.

Hlutabréf hækkuðu almennt í Asíu og Ástralíu í dag og DJ Asia Pacific vísitalan hækkaði um 2%. Í Japan nam hækkunin 1,7% og í SCMP segir að ástæðan séu væntingar um að efnahagsaðgerðir í Bandaríkjunum muni hraða bata í efnahag heimsins. Jenið hélt áfram að lækka gagnvart dollar sem ýtti undir verð útflytjenda í Japan.