Útlit er fyrir að málmiðnaðarmenn muni gera kröfur um verulegar launahækkanir í komandi kjarasamningum, ef marka má orð Jóhanns Rúnars Sigurðssonar, varaformanns Samiðnar. Jóhann er jafnframt formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri, en félagið hefur látið gera kjarakönnun meðal félagsmanna, sem telji launahækkanir tímabærar.

„Þessi könnun leiðir berlega í ljós að félagsmenn telja að tillit verði að taka til síðustu kjarasamninga sem gerðir hafa verið, svo sem við kennara og lækna. Félagsmenn vilja með öðrum orðum verulegar launahækkanir og þessum skilaboðum verður komið til Samiðnar, sem fer með samningsumboðið," er haft eftir Jóhanni á Akureyrarvefnum.

Meirihluti styður verkfall

„Já, 74 % segjast styðja verkfallsaðgerðir, náist ekki samningar. Þessi niðurstaða undirstrikar að mikill hugur er í mönnum. Þessi baráttuvilji er gott veganesti fyrir samningamenn og skýr skilaboð um að sækja eigi sambærilegar hækkanir og samið hefur verið um að undanförnu. Kauptaxtar hafa setið eftir, sem þarf klárlega að leiðrétta í komandi samningum," segir hann jafnframt.

Jóhann segir að ekki sé hægt að ætlast til þess að menn sitji á höndum sér og horfi upp á aðrar stéttir þiggja launahækkanir. Stöðugleika verði að fylgja almennar launahækkanir en ekki hjá einstaka hópum. Aftur á móti kveðst hann svartsýnn í ljósi viðbragða sem atvinnurekendur hafi sýnt framlögnum kröfum um verulegar launahækkanir.