„Við búum til peninga fyrir austan, bókstaflega,“ segir Janne Sigurdsson, forstjóri Alcoa Fjarðaráls á Reyðarfirði. Hún hlær þegar talið berst að virðisaukandi vörum. „Við höfum starfsleyfi til framleiðslu á 360 þúsund tonnum. Við erum alltaf að reyna að bæta arðsemina, bæði með því að framleiða meira og með því að fá meira út úr því sem við þegar gerum. Við erum stanslaust að bæta okkur í virðisaukandi vörum. Við fjárfestum til dæmis í víravél, sem er 10% af fjárfestingunum okkar. Það er bara ein vél, sem býr til vír, en hún er virðisaukandi fyrir okkur. Í rauninni er hún lítil verksmiðja inni í steypuskálanum okkar þar sem frekari fullvinnsla álsins fer fram. Þessi vél kostaði meira en tvenn jarðgöng til Norðfjarðar!“ segir Janne.

„Í staðinn fyrir að selja tonn af áli og segja bara: Gjörið svo vel og gerið eitthvað við þetta, þá búum við til verðmæti. Við búum til dæmis til vír sem kemur í rúllum og er notaður beint í kapla. Það er mjög gaman að segja frá því að þetta er til dæmis notað í evruseðlana! Í evruseðli er málmrönd sem er úr áli frá okkur. Ég er svo stolt af því,“ segir Janne. „Það er ekki mikið magn sem fer í þetta en það er mjög skemmtilegt.“

Nánar er rætt við Janne í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Í viðtalinu segir hún m.a. mun betra að vera kona á Íslandi en í Danmörku. Í viðtali við Viðskiptablaðið ræðir Janne óvissu um fjárfestingarkosti á næstu árum, óstöðugleika í skattaumhverfi, rammaáætlun, framfarir í álframleiðslu á Íslandi og margt fleira. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.