Samanlagður hagnaður af rekstri Málningar hf. og dótturfélags þess, Slippfélagsins ehf., var um 263 milljónir fyrir árið 2020 í samanburði við 92 milljónir fyrir árið á undan.

Heildarveltan nam ríflega 2,8 milljörðum árið 2020 úr tæplega 2,5 milljörðum árið 2019. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Eignir Málningar hf. jukust um 23% á tímabilinu og námu 1,4 milljörðum króna í lok árs. Þá var eigið fé félagsins í lok árs tæpir 1,2 milljarðar og eiginfjárhlutfall félagsins því 84%. Félagið greiddi ekki arð á árinu og var handbært fé í árslok 221 milljón. Þá jókst virði eignarhlutar félagsins í Slippfélaginu um 38% í 490 milljónir úr 354 milljónum árið áður.

Framkvæmdastjóri Málningar ehf. er Baldvin Valdimarsson. Stærsti hluthafi félagsins er Framherji ehf. sem á 98% en hjónin Valdimar Bergstað og Halldóra Baldvinsdóttir eiga 80% hlut í því.