Hagnaður PwC á reikningsárinu til júní 2011 var langt fyrir neðan það sem gengur og gerist meðal stóru endurskoðunarfyrirtækjanna. Hann nam aðeins um 10,3 milljónum króna af 1.536,2 millj­óna króna veltu. Til samanburð­ar var hagnaður KPMG um 408 milljónir af 3.357 milljóna króna veltu og hagnaður Deloitte nam 300,8 milljónum af 3.077,9 millj­óna króna veltu. Það var því lítið til skiptanna meðal hluthafa PwC það árið.

Friðgeir Sigurðsson, framkvæmdastjóri PwC, segir að fyrirtækið hafi undanfarið þurft að eyða bæði tíma og fjármunum í að verja sig fyrir dómstólum. „Við erum hins vegar ekki eina fyrirtækið sem er í þessari stöðu eftir bankahrun.“ Hann segir ómögulegt að fjölyrða um hvort eða þá að hve miklu leyti dómsmálin hafi haft áhrif á hagn­að fyrirtækisins. Málarekstur Glitnis gegn PwC hafi kostað fyrirtækið mikið, en málinu var vísað frá dómi. „Þessi kostn­aður hljóp á tugum milljóna króna. Brugðumst við þannig við að lýsa kröfu í þrotabúið vegna tjónsins og erum reiðubúin að láta reyna á rétt okkar fyrir dómstólum.“