Jóhannes Rúnar Jóhannson hrl. segir Vincent Tchenguiz reyna að hafa óeðlilegan ávinning af sér og Kaupþingi með málshöfðun til heimtu skaðabóta. Skaðabótakrafa Tchenguiz hljóðar upp á 2,2 milljarða punda en hann sakar Jóhannes Rúnar, í félagi við aðra, um að hafa logið til um ólögmætt athæfi hans til að efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar myndi rannsaka sig.. Enskur dómstóll komst í gær að þeirri niðurstöðu að mál Tchenguiz gegn Jóhannesi og fleiri aðilum skyldi tekið til efnismeðferðar í Englandi.

Ekki í samræmi við raunveruleikann

Jóhannes hafnar öllum ásökunum Tchenguiz og segir þær ekki eiga sér neina stoð í raunveruleikanum, og kveðst ánægður með að krafan á hendur Kaupþingi í málinu fái ekki efnismeðferð í Englandi.

„Rannsóknir erlendra lögregluyfirvalda og handtaka Vincent Tchenguiz eru ákvarðanir sem teknar voru af þeim og á þeirra ábyrgð og hvorki ég né Kaupþing leituðumst nokkru sinni við að koma slíkum aðgerðum í kring,“ segir Jóhannes.

Hann kveðst munu verjast kröfum Tchenguiz fyrir enskum dómstólum með festu, enda séu kröfurnar tilhæfulausar.

„Ef Vincent Tchenguiz og tengdir aðilar kjósa að halda kröfum á hendur mér til streitu er ég þess fullviss að enskir dómstólar muni sýkna mig af öllum kröfum sem hafðar eru uppi á hendur mér,“ segir hann.

Yfirlýsing Jóhannesar í heild:

Reykjavík 1. júlí 2015

Dómur undirréttar (e. High Court of Justice) í Englandi um lögsögu enskra dómstóla í Tchenguiz-málaferlum gegn Kaupþingi hf. og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni hæstaréttarlögmanni.

Í nóvember 2014 höfðuðu Vincent Tchenguiz og tengdir aðilar dómsmál í Englandi gegn Kaupþingi hf., Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni hrl. (sem á sæti í slitastjórn Kaupþings), Grant Thornton UK LLP og tveimur eigendum Grant Thornton UK LLP. Kröfur stefnenda eru sagðar tilkomnar vegna meintrar aðkomu stefndu að rannsókn breskra lögregluyfirvalda á Vincent Tchenguiz og tengdum aðilum sem leiddu til húsleitar og handtöku Vincent Tchenguiz í mars 2011. Kröfur stefnenda hljóða upp á u.þ.b. 2,2 milljarða sterlingspunda, sem nemur ríflega 455 milljörðum íslenskra króna.

Í janúar þessa árs fóru Kaupþing og Jóhannes Rúnar fram á frávísun allra krafna á hendur sér á þeim grundvelli að enskir dómstólar hefðu ekki lögsögu til þess að fjalla um málið.

Kaupþing

Í dag komst dómstóll í Englandi að þeirri niðurstöðu að stefnendur gætu ekki haft uppi kröfur á hendur Kaupþingi þar í landi. Áhrif dómsins eru því þau að málið fær ekki efnismeðferð í Englandi hvað Kaupþing varðar.

Það er afstaða Kaupþings að krafan, sem haldið var til streitu þrátt fyrir mótmæli Kaupþings, eigi sér enga stoð. Niðurstaða dómara í Englandi er sú að málshöfðunin var brot á íslenskum lögum sem gilda um slitameðferð Kaupþings og sem beita ber í Englandi á grundvelli viðeigandi Evróputilskipana um slit fjármálafyrirtækja. Kaupþing mun krefja stefnendur um greiðslu þess málskostnaðar sem til er fallinn.

Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður.

Varðandi Jóhannes Rúnar varð það hins vegar niðurstaða dómara að dómstólar í Englandi hefðu lögsögu til þess að fjalla um sakargiftir á hendur honum. Efnismeðferð í málinu, hvað hann varðar, mun því fara fram ytra. Dómarinn tók sérstaklega fram í ákvörðun sinni að ekki hefði verið fjallað um efnishlið málsins á þessu stigi enda slíkt ótímabært.

Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl: „Ég er mjög ánægður með niðurstöðu enskra dómstóla varðandi Kaupþing. Að mínu mati eru þessar kröfur lítt dulin tilraun Vincent Tchenguiz til að tryggja sjálfum sér og tengdum skuldurum óeðlilegan ávinning við slit Kaupþings. Skuld þessara aðila við Kaupþing nemur meira en 143 milljónum sterlingspunda, sem jafngildir um 30 milljörðum íslenskra króna. Skuldin er tryggð með persónulegri ábyrgð Vincent Tchenguiz að fjárhæð 10 milljónir sterlingspunda, sem jafngildir meira en 2 milljörðum króna."

„Eins og ég hef þegar gefið skýrslu um til réttarins í Englandi, þá er það fjarstæðukennt að ég hafi tekið þátt í meintu samsæri eða öðrum ólögmætum athöfnum líkt og borið er í stefnu málsins. Ég endurtek að þær ásakanir sem gerðar eru á hendur mér eiga sér enga stoð í raunveruleikanum og eru með öllu ósannar. Rannsóknir erlendra lögregluyfirvalda og handtaka Vincent Tchenguiz eru ákvarðanir sem teknar voru af þeim og á þeirra ábyrgð og hvorki ég né Kaupþing leituðumst nokkru sinni við að koma slíkum aðgerðum í kring."

„Ég mun verjast öllum kröfum áður nefndra aðila af festu enda kröfur þeirra tilhæfulausar með öllu og allar sakargiftir rangar. Ef Vincent Tchenguiz og tengdir aðilar kjósa að halda kröfum á hendur mér til streitu er ég þess fullviss að enskir dómstólar muni sýkna mig af öllum kröfum sem hafðar eru uppi á hendur mér.”