*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Innlent 19. febrúar 2020 18:01

Málskostnaður 27-faldaði kröfuna

Félagið Einn á móti X tapaði öðru sinni dómsmáli fyrir frístundabyggðinni Ásum. Deila aðila er áralöng.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Félagið Einn á móti X ehf. var í Héraðsdómi Reykjavíkur í liðinni viku dæmt til að greiða frístundabyggðinni Ásum 45 þúsund krónur auk vaxta. Þá var málskostnaður, ein milljón króna, einnig felld á félagið. Þetta er í annað sinn sem félagið tapar deilu gegn sama aðila.

Frístundabyggðin Ásar er í landi Fells í Bláskógabyggð. Vegur að frístundabyggðinni var lagður af eiganda jarðarinnar. Fyrir nokkrum árum tók félag eigenda sumarhúsa á svæðinu ákvörðun um að koma fyrir hliði til að koma í veg fyrir óviðkomandi umferð frá þjóðvegi að frístundahúsunum.

Að Ásum eru 15 frístundalóðir og hafa tíu sumarhús risið þar. Lóð Eins á móti X er ein þeirra lóða sem enn hefur ekki verið byggt á. Af lestri dómanna tveggja má ráða að forsvarsmaður félagsins sé sennilega mikill prinsippmaður sem láti ekki ganga yfir sig á skítugum skónum. Hefur hann talið það standist ekki félagsfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar að skikka sig til aðildar að frístundarbyggðarfélaginu en slík aðild er lögboðin.

Einn á móti var sannarlega einn á móti í fyrra dómsmálinu því forsvarsmaður félagsins var andvígur uppsetningunni á hliðinu. Hið sama gilti um landeigandann, farið var fram á lögbann við uppsetningu þess en því hafnað. Meirihlutinn réð, hliðið var sett upp og forsvarsmanni félagsins sendur reikningur fyrir hans kostnaði við uppsetninguna. Þann reikning vildi hann ekki greiða og sagði sig úr félaginu. Dómur var kveðinn upp í málinu í júní 2018 en þar var félagið dæmt til að greiða 15 þúsund króna reikning vegna þessa auk 650 þúsund króna í málskostnað. Þeim dómi var ekki áfrýjað og hefur félagið ekki staðið skil á greiðslu í samræmi við dóminn.

Fyrri dómur bindandi og sönnunargildi ótvírætt

Fyrir dómi nú var deilt um skyldu Eins á móti X til að greiða félagsgjöld til Ása en þau hefur hann ekki heldur greitt. Þá gerðu Ásar einnig kröfu um viðurkenningu á lögveðsrétti sínum í fasteign félagsins á grunni eldri dómsins. Fyrirsvarsmaður Eins á móti X flutti málið sjálfur en bæði honum og félaginu var stefnt í málinu. Krafðist hann sýknu meðal annars á grundvelli aðildarskorts þar sem félag hans hefði leigt lóðina til hans sjálfs að undanförnu.

Einn á móti sagði óumdeilt að hann hefði sagt sig úr félaginu og vildi ekkert með það hafa. Uppsetning hliðsins hefði skert umferðarrétt hans og verið í trássi við vilja eiganda jarðarinnar sem jafnframt væri veghaldari. Það gæti ekki staðist að skikka hann til aðildar að félagi „sem standi að ólögmætum aðgerðum“ og neitaði hann að greiða upphæðina af þeim sökum.

Í niðurstöðu dómsins var á það bent að fyrri dómi hefði ekki verið áfrýjað. Hefði hann því bindandi áhrif fyrir aðila og fullt sönnunargildi um atvik málsins. Málsástæðum um ólögmæta skylduaðild að félaginu var því hafnað.

Dómurinn sagði enn fremur að fyrrgreindum leigusamningi hefði ekki verið þinglýst og þar að auki bæri að skoða hann sem málamyndagjörning milli Eins á móti X og fyrirsvarsmanns þess. Af þeim sökum hefði félaginu réttilega verið stefnt í málinu sem réttum aðila til fyrirsvars.

Fyrirsvarsmaðurinn var því sýknaður en félagið dæmt til greiðslu árgjaldanna, alls 45 þúsund krónur auk dráttarvaxta, auk þess að lögveðréttur í fasteigninni, samkvæmt fyrri dómi, var viðurkenndur. Þá var félagið dæmt til greiðslu málskostnaðar, fjárhæð ein milljón króna. Samanlagt hefur félagið því verið dæmt til greiðslu rúmlega 1,6 milljón króna í málskostnað í tveimur málum vegna 60 þúsund króna reikninga. Með einföldum hugarreikningi fæst því sú niðurstaða að málskostnaðurinn sé ríflega 27-falt hærri en kröfur málsins.