Málsóknarfélag hluthafa Landsbanka Íslands hf. hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem brugðist er við fréttatilkynningu Björgólfs Thors Björgólfssonar , sem hann sendi frá sér í gær.

Í yfirlýsingu málsóknarfélagsins kemur meðal annars fram að fullyrðing Björgólfs, um að málsóknin sé gerð að frumkvæði lögmanna og sé „gróðabrall“ þeirra, sé röng. Fyrirhuguð hópmálsókn sé ekki hugmynd þeirra lögmanna sem Björgólfur vísi til, heldur hluthafa í Landsbanka Íslands hf.

Þá kemur einnig fram í yfirlýsingunni að Björgólfur fari með villandi staðhæfingar um ábyrgð einstakra félagsmanna málsóknarfélagsins varðandi kostnað málsins. Það sé ekki rétt, líkt og Björgólfur haldi fram, að allur kostnaður geti endað hjá einum óheppnum þátttakanda í málsókninni.

Yflrlýsing málsóknarfélagsins:

„Frumkvæði að málshöfðun hjá hluthöfum Landsbanka Íslands hf.

Í yfirlýsingu Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem birt var í nokkrum fjölmiðlum í gær, 24. júní, er látið að því liggja að fyrirhuguð hópmálsókn á hendur Björgólfi sé með einhverjum hætti að frumkvæði lögmanna í Reykjavík og að aðkoma þeirra að undirbúningi málsóknarinnar sé það sem hann kallar „gróðabrall“. Þessi fullyrðing Björgólfs er röng.  Fyrirhuguð hópmálsókn er ekki hugmynd þeirra lögmanna sem Björgólfur vísar til, heldur hluthafa í Landsbanka Íslands hf. Hluthafinn viðraði hugmyndir um hópmálsókn á hendur Björgólfi í fjölmiðlum þegar á árinu 2010 eftir að fram komu upplýsingar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem gáfu til kynna að Björgólfur hefði ekki fylgt þeim reglum sem gilda um upplýsingagjöf til hlutahafa. Í samráði við tiltekna hluthafa Landsbanka Íslands hf. hófst vinna við umfangsmikla gagnaöflun sem nauðsynleg var til að undirbyggja málsókn á hendur Björgólfi. Þá hafa umræddir lögmenn unnið að gerð stefnu vegna málsóknarinnar.

Fastur kostnaður lögmanna auk hlutfalls af ávinningi dregur úr áhættu hluthafa

Til þess að takmarka áhættu af kostnaði fyrir málsóknarfélagið var talið rétt að semja við lögmannsstofu um fasta þóknun til lögmanna. Í samningi málsóknarfélagsins við þá lögmannsstofu sem hefur tekið að sér málareksturinn var samið um fasta þóknun, 20 milljónir kr. auk virðisaukaskatts, og að auki fá lögmenn 10% af ávinningi af málaferlunum. Kostnaður af málarekstrinum er því fyrirfram ljós. Áhætta af auknum kostnaði af rekstri málsins færist yfir á lögmennina, sem fá í staðinn 10% af ávinningi ef bætur fást greiddar. Þetta fyrirkomulag við rekstur dómsmála er alþekkt og tryggir hagsmuni málsóknarfélagsins og hluthafa betur en annað fyrirkomulag við ákvörðun endurgjalds fyrir vinnu.

Stærri hluthafar bera mestan kostnað og áhættu af rekstri málsins

Fyrirkomulag þátttökugjalds í félaginu er þannig að þeir aðilar sem flest hlutabréf eiga bera mestan kostnað og áhættu af málarekstrinum. Þeir leggja til 15% af nafnverði hlutafjár síns til félagsins fyrir þátttöku og fá hlutfallslega endurgreitt ef fjármunir standa eftir í málsóknarfélaginu að loknum málaferlum. Eftirfarandi tafla sýnir fjárhæð félagsgjalds í hverjum flokki:

Fjöldi hluta Þátttökugjald
1-100.000 5.000
100.001-300.000 15.000
300.001-500.000 40.000
Fleiri en 500.000 15%

Fjármögnun verður tryggð áður en mál verður höfðað

Það er hlutverk stjórnar málsóknarfélagsins að gæta að því að félagið eigi næga fjármuni fyrir rekstri málsins áður en lagt er af stað og að ekki sé stofnað til kostnaðar við rekstur þess umfram efni. Fyrirséð er út frá viðbrögðum hlutahafa að fjármögnun á málatilbúnaðinum verður ekki vandkvæðum bundin og ljóst miðað við viðbrögð hluthafa að félagið muni ráða yfir fjármunum sem duga vel fyrir skuldbindingum þess, þ.m.t. hugsanlegum málskostnaði sem félagið kynni að verða dæmt til að greiða Björgólfi ef málið tapaðist.

Ekki er bannað að auglýsa hópmálsókn

Til þess að koma upplýsingum til allra hluthafa Landsbanka Íslands hf. er nauðsynlegt að auglýsa slíkt í fjölmiðlum. Aðrar aðferðir verða að teljast óraunhæfar. Beinlínis er gert ráð fyrir því í lögum um hópmálsókn að leitast sé við að safna saman aðilum sem eiga sameiginlega hagsmuni.

Björgólfur heldur því fram að með því að auglýsa fyrirhugaða hópmálsókn í fjölmiðlum séu lögmenn félagsins að „lokka til sín viðskiptavini á röngum forsendum“ og séu tilbúnir að beita til þess „vafasömum meðölum“. Dómstólar munu skera úr um það hvort Björgólfur hefur brotið gegn réttindum hluthafa og valdið þeim tjóni. Að mati þeirra sem að málshöfðuninni standa liggja fyrir fullnægjandi sönnunargögn í málinu um saknæma háttsemi Björgólfs. Hafa þessi gögn að hluta þegar komið fram í umfjöllun Kastljóss og verða kynnt hluthöfum á fundi sem fyrirhugaður er í Háskólanum í Reykjavík í dag, 25. júní, kl. 17. Þar verður áhugasömum gerð nánari grein fyrir fyrirhugaðri málsókn og þeim réttindum og skyldum sem fylgja þátttöku í málsóknarfélaginu. Þá eru allar upplýsingar um félagið sjálft og samning við lögmenn að finna á vefsíðu málsóknarfélagsins malsokn.landslog.is. Því er þannig með öllu hafnað að lögmenn séu að reyna að „lokka til sín viðskiptavini á röngum forsendum“. Allir hluthafar munu hafa allar nauðsynlegar upplýsingar til að taka ákvörðun um þátttöku í málsóknarfélaginu á eigin forsendum.

Villandi staðhæfingar um ábyrgð einstakra félagsmanna

Í lok yfirlýsingar sinnar fer Björgólfur með villandi staðhæfingar um ábyrgð félagsmanna málsóknarfélags. Félagsmenn málsóknarfélags bera óskipta ábyrgð á greiðslu málskostnaðar verði slíkur kostnaður dæmdur gagnaðila, enda er sú ábyrgð bundin í lög.  Óskipt ábyrgð í lögum um hópmálsókn er hugsuð sem hagræði fyrir báða aðila málsins.  Í óskiptri ábyrgð felst sameiginleg ábyrgð sem dregur úr áhættu hvers og eins en eykur hana ekki eins og Björgólfur heldur ranglega fram. Það er því ekki svo, líkt og Björgólfur lætur að liggja, að allur kostnaðurinn geti endað hjá einum óheppnum þátttakanda í málsóknarfélaginu. Umfjöllun Björgólfs um ábyrgð félagsmanna á hugsanlegu tjóni sínu vegna „rangra ásakana“ eru afar langsóttar og óraunhæfar, svo ekki sé meira sagt. Þá er ekki unnt að hafa uppi kröfur á hendur málsóknarfélaginu og því getur Björgólfur ekki höfðað  mál á hendur félaginu til að skapa kostnað, svo dæmi sé tekið. Við því sá löggjafinn þegar í upphafi.“