Bandaríska lögfræðifyrirtækið Lerach Coughlin Stoia Geller Rudman & Robbins LLP hefur hafið undirbúning á málsókn gegn deCODE og stjórnendum þess. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans í dag. Um er að ræða svokallað "Class Action Suit" en þá geta aðilar sem keyptu bréf í fyrirtækinu á tímabilinu 29. október 2003 til 26. ágúst 2004 skráð sig sem þátttakendur í málssókninni. Ásakanirnar felast í því að stjórnendur félagsins eiga að hafa þrýst gengi félagsins upp, m.a. með því að birta villandi tilkynningar og með því að leyna vandamálum í innri stjórnun félagsins segir í Vegvísinum.

Þar segir ennfremur að ásakanirnar á hendur deCODE séu fremur óljósar og því erfitt að meta hvort eitthvað haldbært sé á bakvið þær. Málsóknir sem þessar eru ekki óalgengar vestanhafs en þeim á að vera ætlað að vernda hluthafa viðkomandi fyrirtækja. Ef ekki koma fram frekari upplýsingar sem styðja málatilbúnað þennan er vandséð að hluthafar deCODE muni hagnast á máli sem þessu.

Litlar breytingar hafa orðið á bréfum deCODE í dag en þau hafa lækkað sem nemur 0,05%.