*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 24. mars 2015 08:20

Málsvarnarlaun hækkuð í samræmi við vísitölu

Tímakaup verjenda í opinberum málum hækkar úr 10.000 kr. í 16.500 kr. samkvæmt nýjum reglum.

Ritstjórn
Fjárhæðir málsvarnarlauna verjenda í sakamálum hafa verið óbreyttar í mörg ár.
Haraldur Guðjónsson

„Þetta er margra ára leiðrétting sem er að koma þarna í einum pakka,“ segir Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri Lögmannafélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið, en málsvarnarlaun og þóknanir verjenda og réttargæslumanna í sakamálum hafa verið hækkuð með ákvörðun dómstólaráðs. 

Tímakaup verjanda hækkar úr 10.000 krónum á klukkutíma í 16.500 krónur, og er auk þess tekið fram í reglunum að málsvarnarlaunin skuli aldrei vera lægri en 78.000 krónur sem er hækkun úr 46.700 krónum. 

Ingimar segir þessar fjárhæðir hafa verið óbreyttar í mörg ár og lögmenn hafi talið knýjandi þörf á þær yrðu leiðréttar. Til hafi staðið að hækka fjárhæðirnar fyrir allmörgum árum en það hafi ekki gengið eftir. Í stað þess hafi þær verið lækkaðar árið 2009 með reglugerð sem þáverandi innanríkisráðherra setti.

Símon Sigvaldason, formaður dómstólaráðs, segir fjárhæðina hafa verið fundna út þannig að fjárhæðin sem gilti fyrir hrun hafi verið hækkuð miðað við þróun vísitölu til dagsins í dag.