*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Frjáls verslun 25. nóvember 2019 13:47

Málverkin upp?

Að mati nýs seðlabankastjóra ætti að finna nektarmálverkum eftir Gunnlaug Blöndal einhvern stað í Seðlabankanum.

Ritstjórn
Málverk eftir Gunnlaug Blöndal.
Aðsend mynd

Seðlabanki Íslands á nokkuð safn listaverka eða samtals um 320 málverk. Í janúar birtust fréttir af því að vegna kvartana einhverra starfsmanna hefði verið ákveðið að taka niður nektarmálverk eftir Gunnlaug Blöndal og setja þau í geymslu. Vakti þetta hörð viðbrögð. Bandalag íslenskra listamanna sendi bankanum erindi þar sem ákvörðunin var hörmuð.

Í viðtali við Vísi þann 21. janúar sagði Erling Jóhannesson, forseti bandalagsins, að félagið hefði í erindi sínu lýst furðu sinni á því að „bankinn skuli einhvern veginn undirgangast tepruskap og púrítanisma með því að taka niður list á þeim forsendum að nektin trufli einhverjar sómakærar sálir.“

Spurður hvort hann hyggist taka málverkin úr geymslu og hengja aftur upp svarar Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri: „Þetta er eitt af þessum stóru málum,“ segir Ásgeir og brosir út í annað. „Í sannleika sagt þá hef ég ekki tekið þessa umræðu hérna inni. Það mætti færa rök fyrir því að ekki sé viðeigandi að hafa nektarmyndir á ákveðnum stöðum eins og til að mynda inni á skrifstofu seðlabankastjóra eða annarra yfirmanna hér. Það kann að fara fyrir brjóstið á einhverjum. Að mínu áliti ætti samt að finna þessum verkum einhvern stað hér.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er í ítarlegu viðtali í bókinni 300 stærstu sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér.