Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson fetaði í fótspor ættingja sinna, afa, móður, fósturföður og fleiri innan fjölskyldunnar þegar hann fór í verslunarrekstur og opnaði Sports Direct.

„Maður ólst upp við þetta. Þegar ég var krakki þá var ég mjög mikið með afa alveg þar til hann dó. Svo hef ég alltaf haft gaman af verslun. Mamma sagði einhvern tíma við mig þegar ég var táningur að prófa eins mikið af öðru til að vera viss í minni sök. Ég hef prófað margt og vann m.a. alltaf með skólanum. Ég vann í Hagkaup, 10-11, var eitt sumar í Bónus í Færeyjum, Domino’s og vaskaði upp eitt sumar í mötuneyti í Kaupmannahöfn. Svo var ég í eitt ár hjá netfyrirtækinu Gæðamiðlun [sem varð að fyrirtækinu Mekkanó fyrir síðustu aldamót] og eitt ár á veitingastaðnum Hard Rock, sem var óhemjuleiðinlegt starf en skemmtilegur vinnustaður. Eftir það fór ég í blaðamennsku á Morgunblaðinu og þaðan fór ég út í tónlistarútgáfu með Barða í Bang Gang. Það var mjög gaman en átti ekki alveg við mig,“ segir Sigurður Pálmi.

Hann viðurkennir að sér leiðist að sinna tengslum allan daginn. Til viðbótar sé hann enginn sérstakur áhugamaður um tónlist. „Mér finnst verslanareksturinn skemmtilegastur og kem alltaf aftur í hann,“ segir Sigurður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .