Nokkurn tíma tók að finna rétt nafn á fyrirtækið Meniga og á lausnina sem fyrirtækið ætlaði sér að bjóða upp á, að sögn Georgs Lúðvíkssonar, framkvæmdastjóra Meniga, sem hlaut Frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins árið 2011.

„Það er margt sem þarf að huga að þegar nafn er valið, sérstaklega þegar hugmyndin er sú að sækja á erlenda markaði. Útlendingar þurfa að minnsta kosti að geta borið það fram án teljandi erfiðleika,“ sagði Georg í viðtali við áramótatímarit Viðskiptablaðsins.

„Þá er nauðsynlegt að geta náð erlendu .com léni með nafninu án þess að þurfa að borga stórfé fyrir. Fyrst um sinn notuðum við vinnuheitið Mammon hérna innanhúss, en okkur varð mjög snemma ljóst að það myndi ekki ganga, þar sem það vekur upp mynd í huga fólks um peningadýrkun og græðgi. Meniga hefur náttúrlega skírskotun hérna á Íslandi til lags Ólafs Hauks Símonarsonar, Eniga meniga, sem er ágætt, en mestu máli skipti að finna nafn sem virkaði úti, þótt það hefði enga sérstaka merkingu erlendis, og að erlenda lénið væri laust.“

Georg Lúðvíksson - Meniga
Georg Lúðvíksson - Meniga
© BIG (VB MYND/BIG)