Þýski trukkaframleiðandinn MAN hefur verið að kaupa grimmt hluti í sænska vörubílaframleiðandanum Scania að undanförnu eftir að stjórn Scania hafnaði tilboði MAN um að kaupa öll hlutabréf í félaginu. Virðist MAN nú stefna að óvinveittri yfirtöku á félaginu með vitund og vilja Volkswagen, sem er þar stærsti einstaki hluthafinn með 34% hlut.

Á fimmtudag í síðustu viku var MAN komið með 14,27% hlut í félaginu, en var aðeins með 5,2% hlut þann 29. september. Er talið að MAN muni reyna að tryggja sér 16% hlut, en þar með væru þessi tvö þýsku félög komin með 50% hlut í Scania. Verðið á hlutabréfum í Scania hefur farið hækkandi vegna aðgerða MAN sem borgaði 475 sænskar krónur á hlut fyrir bréf sem keypt voru á fimmtudag sem var talsvert hærra verð en skráð verð við opnun markaðar í sænsku Kauphöllinni í Stokkhólmi þá um morguninn.

MAN lagði fram skilyrt tilboð um kaup á öllu hlutafé fyrirtækisins í síðustu viku og hljóðaði yfirtökutilboðið uppá 442 skr. á hlut eða alls um 9,6 milljarða evra fyrir allt félagi (tæpa 814 milljarða ísl. kr.) Þessu hafnaði stjórn Scania á þeim forsendum að um vanmat á virði félagsins væri að ræða. Tekjuhorfur séu mun meiri en almennt gerist á markaðnum. Einnig segir að stjórn Scania hafi tilkynnt MAN á miðvikudag að félagið væri tilbúið til frekari viðræðna að því tilskyldu að MAN drægi tilboð sitt til baka. Þá er einnig sagt að vegna hagsmunaárekstra hafi og muni fulltrúar Volkswagen í stjórn Scania sitja hjá varðandi allar ákvarðanir sem snerta MAN.