Ávöxtun yfir mánaðartímabil á skuldabréfamarkaði þurrkaðist nánast öll út í miklum lækkunum í gær. Nam lækkunin 5,4%.

Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri Gam Management, segir í samtali við Viðskiptablaðið að lækkun á markaði megi að miklu leyti rekja til stýrivaxtalækkunar Seðlabankans, sem var undir væntingum, og algerri stefnubreytingu hans um afnám gjaldeyrishafta. Í þeim efnum hafi bankinn nú skipt tvisvar um skoðun.

„Við síðustu vaxtaákvörðun sögðu þeir að áætlun um afnám hafta yrði endurskoðuð og gefið í skyn að vextir yrðu lækkaðir hratt, enda væru þeir of háir. Hann virðist nú að nýju huga frekar að afnámi hafta. Trúverðugleiki bankans hefur ekki verið mjög mikill undanfarin ár og hringlandaháttur nú er ekki til að bæta hann.“