Mánaðarlaun forstjóra Fjármálaeftirlitsins eru 1,7 milljónir króna. Mánaðarlaun aðstoðarforstjóra eru rúmlega 1,2 milljónir króna.

Þetta kemur fram í svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar, þingmanns VG.

Fram kemur í svarinu að ráðherra hafi farið fram á það við stjórn FME að hún endurskoði starfskjör forstjórans í ljósi fram komins frumvarps um breytingu á lögum um kjararáð.

Tvöfaldar laun stjórnarmanna

Í svarinu kemur jafnframt fram að ráðherrann hafi ákveðið að tvöfalda laun stjórnarmanna nýverið vegna álagsins að undanförnu. Sú launahækkun gildi til áramóta.

Upplýst er að frá 1. júlí hafi mánaðarleg laun stjórnarformanns verið 260.000 kr., laun almennra stjórnarmanna 130.000 kr. og laun varastjórnarmanna 90.000 kr.

Fundað um kvöld, helgar og á nóttunni

„Vegna þess mikla álags sem hefur fylgt fjármálakreppunni og nýjum verkefnum, m.a. við framkvæmd laga nr. 125/2008, hefur fundatíðni margfaldast, sem m.a. hefur leitt til þess að stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur þurft að funda um helgar, á kvöldin og nóttunni," segir í svarinu.

„Ráðherra ákvað þess vegna að tvöfalda þóknun stjórnarmanna fyrir tímabilið 1. október til ársloka. Í ljósi aukins álags á formann stjórnar Fjármálaeftirlitsins sem hófst þegar í sumar ákvað ráðherra að tvöfalda þóknun hans frá 1. júlí sl. Engin ákvörðun hefur verið tekin um frekari álagsgreiðslur," segir enn fremur í svarinu.