Meðalheildarlaun allra lögreglumanna í Landssambandi lögreglumanna voru um 6,5 milljónir króna á árinu 2007, samkvæmt því sem fram kemur í skriflegu svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur, alþingismannss, um kostnað og fleira sem varðar sérsveit Ríkislögreglustjóra.

Kolbrún spurði m.a. um meðallaun sérsveitarmanna annars vegar og meðallaun annarra lögreglumanna hins vegar. Í svarinu segir að meðalheildarlaun sérsveitarmanna hafi verið um 7,4 milljónir króna á árinu 2007 eða um 616.000 krónur á mánuði en sama ár voru meðallaun allra lögreglumanna - að sérsveitarmönnum meðtöldum - tæpar 6,5 milljónir króna eða um 540.000 krónur á mánuði. Meðalaldur lögreglumanna í landinu er um 42,5 ár en meðalaldur sérsveitarmanna er 35,7 ár. Alls er 41 lögreglumaður í sérsveitinni.

Þá kemur einnig fram í svari ráðherrans að kostnaður við rekstur sérsveitarinnar hefur aukist úr um 255 milljónum á árinu 2005 í um 415 milljónir króna á árinu 2007. Á sama tíma fjölgaði þeim skráðu verkefnum sem lögreglumenn í sérsveitinni sinntu úr um 4.300 í um 5.100.