Paul Manafort, fyrrum kosningastjóri Donalds Trump Bandaríkjaforseta, lýsti sig sekan í yfirstandandi réttarhöldum yfir honum á föstudag, og segist munu vera samvinnuþýður við Robert Mueller, sérstakan saksóknara sem leiðir rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016.

Yfirlýsingin er hluti af samningi Manaforts við ákæruvaldið, sem er sagður mikill sigur fyrir Mueller í frétt Financial Times um málið. Manafort er sá hæst settasti af undirmönnum Trump sem semur við Mueller. Glæpirnir sem hann sagðist sekur um eru samsæri gegn Bandaríkjunum og að hindra framgang réttvísinnar.

Upplýsingafulltrúi Hvíta Hússins, Sarah Huckabee Sanders sagði samninginn, og réttarhöldin yfir Manafort almennt, fullkomlega ótengd Trump og „sigursælli kosningabaráttu” hans árið 2016.