Auglýsingastofan Brandenburg hefur ráðið Mána M. Sigfússon til starfa. Hann mun gegna stöðu hreyfihönnuðar á stofunni.

Máni lærði kvikmyndagerð í Amsterdam og lauk BA námi í myndlist við Listaháskóla Íslands. Hann hefur reynslu af leikstjórn og hreyfihönnun og hefur starfað fyrir mörg helstu hönnunar- og framleiðslufyrirtæki landsins. Þar má til að mynda nefna Ketchup Creative, Sitrus, Sagafilm og THANK YOU.

Á síðustu árum hefur Máni einnig leikstýrt og framleitt fjölda tónlistarmyndbanda. Hann hefur getið sér góðs orðs fyrir myndbönd og myndverk við tónleikahald og hefur sinnt verkefnum fyrir listamenn á borð við Rolling Stones, Shawn Mendes og Jóhann Jóhannsson. Verk hans hafa hlotið ýmsar tilnefningar og viðurkenningar, meðal annars á Íslensku tónlistarverðlaununum.

„Við erum virkilega ánægð með að fá Mána til starfa. Sú mikla og fjölþætta reynsla sem hann kemur með mun vera stofunni mikill liðsstyrkur. Það er sérstaklega mikilvægt um þessar mundir, enda liggja nú fyrir fjölmörg spennandi verkefni sem við hlökkum til að takast á við,” er haft eftir Jón Ara Helgasyni, hugmynda- og hönnunarstjóra og einn af eigendum stofunnar, í fréttatilkynningu.