Þorkell Máni Pétursson, betur þekktur sem Máni á X-inu, stofnaði nýlega samlagsfélagið Frosið Tungl sfl. Máni á 99% hlut í félaginu og heldur félagi hans í þættinum Harmageddon, Frosti Logason, um þann hlut sem eftir stendur. Máni bendir á að fjárhagsleg ábyrgð Frosta sé því alls tíu þúsund krónur. Nafn félagsins er sótt til sona Mána, sem heita Pétur Máni og Róbert Frosti.

„Fyrirtækið er stofnað til að halda um eign mína og starfsemi í þeim fyrirtækjum sem ég tengist,“ segir Máni en auk þess að vera útvarpsmaður rekur hann umboðsskrifstofuna Paxal og útgáfufyrirtækið Kölska. Það rekur hann ásamt Barða Jóhannssyni tónlistarmanni. Að sögn Mána er erfitt að segja til um hvort Barði sé betri tónlistarmaður eða bissnessmaður. Af Barða hafi hann lært ótrúlega mikið þegar kemur að viðskiptum.

Ber ábyrgð á eigin skuldum

Á mála hjá Paxal og Kölska eru nokkrir af vinsælustu tónlistarmönnum og hljómsveitum landsins. Hjá Paxal eru meðal annars Dikta, Pétur Ben, Erpur Eyvindason, Friðrik Dór og Ragnheiður Gröndal. Kölski hefur síðan gefið út fimm plötur og eru fleiri á leiðinni, meðal annars með hljómsveitunum Diktu og Our Lives.

Utan skattahagræðis segir Máni að ástæða fyrir því að hann hafi stofnað samlagsfélag, en ekki til dæmis eignarhaldsfélag, sé sú að hann er vinstri maður. „Ég trúi á að allir eigi að græða á viðskiptum en ekki bara einn aðili. Þá er reksturinn og skuldir einnig á minni ábyrgð, á minni kennitölu,“ segir Máni sem vill bera ábyrgð á eigin gjörðum. Hann segir þó að skuldir séu engar í dag og stefnir ekki í að þær verði nokkrar.