Satya Nadella, nýráðinn forstjóri bandaríska hugbúnaðarrisans Microsoft, ætlar að gera umtalsverðar breytingar á stjórnendateymi fyrirtækisins með það fyrir augum að auka tekjur þess. Hann hefur m.a. ráðið Mark nokkurn Penn til að hjálpa sér við að koma fyrirtækinu áfram. Penn þessi var á meðal ráðgjafa Hilary Clinton þegar hún ætlaði að tryggja sér forsetaembætti Bandaríkjanna árið 2008. Það gekk ekki eftir. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Penn vinnur fyrir Microsoft en hann hefur m.a. stýrt auglýsingaherferð Microsoft þar sem spjótunum er beint gegn Google.

Þetta er fjarri því eina mannabreytingin, að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar sem fjallar um málið, því allavega þrír reynsluboltar hjá fyrirtækinu eru að fara annað.